Jón B. Olsen sjálfboðaliði ársins á Suðurnesjum
Sjálfboðaliðar sinna óeigingjörnu starfi í þágu ýmissa félagsmála um land allt og er íþróttahreyfingin þar engin undantekning en innan hennar eru ófá störf innt af hendi sjálfboðaliða. Án sjálfboðaliða yrði íþróttalíf mun fátæklegra og gætu mörg íþróttafélög ekki sinnt sinni starfsemi eða haldið úti því mikilvæga starfi sem þau sinna. Verður því þessum einstaklingum seint fullþakkað fyrir þeirra störf.
5.desember er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og af því tilefni var valinn sjálfboðaliði ársins á Suðurnesjum. Óskað var eftir tilnefningum frá öllum íþróttafélögum á Suðurnesjum og var einn einstaklingur valinn af handahófi úr hópi tilnefninga sem hlýtur viðurkenninguna þetta árið.
Sjálfboðaliðinn sem varð fyrir valinu er Jón B. Olsen frá Hestamannafélaginu Mána.
„Jón hefur verið í félaginu í tæp 40 ár og hefur á þeim tíma unnið mikið og gott starf fyrir félagið. Hann hefur til að mynda setið sem formaður félagins 1997-2001, hann starfaði fyrir Landssamband Hestamannafélaga um tíma og er handhafi gullmerkis LH 2014.
Jón og fjölskylda hans stunduðu hestamennsku af miklu kappi og kepptu
mikið á sínum tíma en Jón hefur átt keppnishross í fremstu röð í tugi ára.
Þó að útgerð hans hafi minnkað töluvert á síðustu árum þá ríður hann mikið út og sinnir sínum hrossum vel.
Jón er tilnefndur sem sjálfboðaliði ársins 2025 af Mána því hann er alltaf fyrstur að mæta á staðinn ef óskað er eftir aðstoð félaga okkar við ýmiskonar verkefni og hann mætir á alla viðburði sem félagið stendur fyrir, sama hvort það séu fundir eða skemmtanir.
Jón er verðugur þess að vera tilnefndur sem sjálfboðaliði ársins“.





