Nýr spjallbekkur hvetur til samtals í Skrúðgarðinum
Kvenfélag Keflavíkur hefur fært Reykjanesbæ rauðan spjallbekk sem nú prýðir Skrúðgarðinn í Keflavík. Bekkurinn er hluti af verkefninu Viku einmanaleikans, sem hefur það að markmiði að hvetja fólk til að rjúfa einsemd, efla tengsl og taka samtalið. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Spjallbekkirnir eru tákn um hlýju og opnar dyr og minna okkur á mikilvægi þess að gefa okkur tíma fyrir hvort annað. Með því að setjast niður á bekknum og spjalla saman geta gestir Skrúðgarðsins bæði átt notalega stund og jafnvel glatt daginn hjá einhverjum sem þarf á samskiptum að halda.
„Reykjanesbær þakkar Kvenfélagi Keflavíkur innilega fyrir rausnarlega gjöf og þann hlýlega samfélagsanda sem félagið stendur fyrir. Nýi spjallbekkurinn er kærkomin viðbót við Skrúðgarðinn og samfélagið í heild,“ segir í tilkynningu bæjarins um gjöfina.








