Hlúum að hjarta samfélagsins
Í amstri dagsins gefum við okkur sjaldan tíma til að staldra við og hugleiða hvað heldur samfélaginu okkar saman, í raun og veru. Í opinberri umræðu og samtölum hversdagsins hættir okkur til að velta okkur upp úr því sem miður fer en á aðventunni fáum við kærkomið tækifæri til að horfa inn á við og í kringum okkur og meta hvað skiptir okkur raunverulega máli.
Um helgina hittumst við Vogabúar á fjölbreyttum aðventuviðburðum, þar á meðal jólabingói Lionsklúbbsins Keilis, kökubasar Kvenfélagsins Fjólu, Epladegi Minja- og sögufélags Vatnsleysustrandar, aðventuguðþjónustu í Kálfatjarnarkirkju þar sem Kirkjukórinn gegnir mikilvægu hlutverki og við tendrun jólatrésins í Aragerði. Þetta eru viðburðir sem margir íbúar tengja við aðventu og jólahefðir og gefa lífi okkar lit, ár eftir ár.
Þessir viðburðir eru þó ekki sjálfgefnir enda flestir þeirra skipulagðir eða framkvæmdir af sjálfboðaliðum, af fólki sem hefði getað verið heima hjá sér og drukkið heitt súkkulaði á dimmum vetrardegi en völdu þess í stað að mæta til að gleðja aðra og halda samfélaginu og jólahefðunum lifandi. Þegar við horfum á samfélagið í heild má skýrt sjá að sjálfboðaliðar eru burðarás þess og án þeirra getum við ekki verið. Þeir halda uppi íþróttastarfi, menningu, félagsstarfi og jafnvel öryggi íbúa þegar á reynir. Sjálfboðaliðar eru hjartað í samfélaginu og krafturinn sem heldur því gangandi.
En víða eru rauð flögg á lofti og við þurfum að hlúa betur að sjálfboðaliðum. Kröfur til þeirra hafa í sumum tilvikum aukist og tímaskortur er orðin ein stærsta hindrunin fyrir fjölgun þeirra. Afleiðingin er að verkefnin eru borin uppi af færri og færri aðilum. Ég þekki þessa þróun vel af eigin raun. Sjálfboðaliðastarf hefur verið stór hluti af mínu lífi í áratugi og auðgað það á ótal vegu en eins og hjá öðrum þarf það stundum
að víkja þegar annir hversdagsins hlaðast upp. Þess vegna ber ég mikla virðingu fyrir þeim Vogabúum sem halda áfram að leggja samfélaginu lið af fórnfýsi og krafti. Það er alls ekki sjálfgefið.
Fyrir þessari stöðu þurfa sveitarfélög og opinberir aðilar að vera vakandi, nýta tækifæri þegar þau gefast og skapa umgjörð sem styður við sjálfboðaliða. Það verðum við að gera sem samfélag enda værum við ekki á sama stað nema fyrir það ómetanlega starf sem sjálfboðaliðar inna af hendi.
Það er einmitt af þessum ástæðum sem frístunda- og menningarnefnd samþykkti að veita sérstaka viðurkenningu fyrir Sjálfboðaliða ársins í Vogum. Með því viljum við ekki aðeins veita innblástur heldur einnig staldra við, sýna þakklæti og lyfta upp því ómetanlega framlagi sem sjálfboðaliðar veita samfélaginu okkar.
Björg Ásta Þórðardóttir,
varaformaður frístunda- og menningarnefndar í Sveitarfélaginu Vogum





