Tónlistarskóli RNB vortónleika
Tónlistarskóli RNB vortónleika

Aðsent

Með blokkum skal bæ byggja?
Fimmtudagur 15. maí 2025 kl. 06:00

Með blokkum skal bæ byggja?

Fyrir rúmu ári síðan bjuggum við fjölskyldan í fjölbýlishúsahverfi í Reykjavík, eftir að hafa flutt þangað vegna rýmingar í Grindavík, og þá stóðum við frammi fyrir stórri spurningu: Hvar vildum við halda heimili til framtíðar? Eftir að hafa skoðað valmöguleikana vandlega kom ekkert annað til greina en Reykjanesbær. Það sem skipti mestu máli var öflugt íþróttastarf, góðir skólar, samfélag þar sem bæjarbúar þekkjast og taka virkan þátt og ekki síst raunhæft framboð af sérbýli á heilbrigðu verði. Allt eru þetta lykilatriði sem skapa þau lífsgæði sem við fjölskyldan viljum búa við og finnum sterkt fyrir hér í Reykjanesbæ.

Í nýsamþykktri húsnæðisáætlun meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar í Reykjanesbæ er gert ráð fyrir að 95,4% allra skipulagðra íbúða á árunum 2024–2033 verði í fjölbýlishúsum. Ég verð að viðurkenna að þegar ég las þessa áætlun hélt ég í fyrstu að um væri að ræða húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar – ekki Reykjanesbæjar. Hvernig getur svona einhæf uppbygging talist skynsamleg, þegar við viljum skapa fjölbreytt samfélag með raunverulegum valkostum?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem býr í Reykjanesbæ að uppbygging síðustu ára hefur að miklu leyti verið í formi fjölbýlishúsa. Því vekur það furðu að nú sé ætlunin að auka hlutfallið og stíga nánast alfarið frá öðru búsetuformi.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Enginn dregur í efa að fjölbýli eigi sinn stað í uppbyggingu – en lykilatriðið er jafnvægi. Við þurfum blandaða byggð þar sem fólk hefur raunverulegt val: hvort það vill búa í blokk, raðhúsi, parhúsi eða einbýli. Með þessu móti endurspeglast ólíkar þarfir og óskir bæjarbúa og tryggt er að samfélagið okkar þróist áfram á fjölbreyttan og heilbrigðan hátt.

Skuggamynd af Reykjavík

Stefnan sem meirihlutinn boðar nú virðist ekki byggð á framtíðarsýn – heldur hugmyndafræði sem hentar kannski í þéttingarreitum Reykjavíkur, en á ekkert erindi við ört vaxandi fjölskylduvænt sveitarfélag eins og Reykjanesbæ. Því miður er þetta eitt dæmi af mörgum um það hvernig núverandi meirihluti hefur markvisst reynt að gjörbreyta bæjarsál Reykjanesbæjar.

Ungt fólk og barnafjölskyldur eiga sér margar þann draum að eignast sérbýli og í sveitarfélagi eins og okkar á sá draumur að vera raunhæfur. Þegar einungis 4,6% íbúða sem byggðar verða næstu árin eiga að vera sérbýli, þá er verið að ýta þessum draumi út fyrir seilingar allra nema þeirra tekjuhæstu.

Reykjanesbær þarf stefnu sem byggir á fjölbreyttu húsnæði, metnaði í skipulagsmálum og virðingu fyrir samfélaginu okkar. Við verðum að átta okkur á þeim lífsgæðum og því samkeppnisforskoti sem við í Reykjanesbæ búum við, það er svo sannarlega engin ástæða til að tefla í tvísýnu þessu forskoti á höfuðborgarsvæðið með því að feta í fótspor meirihlutans í Reykjavík.

Við eigum ekki að sætta okkur við að vera skuggamynd af Reykjavík – við eigum að vera við sjálf.

Vilhjálmur Árnason
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og íbúi í Reykjanesbæ.