Litla-Reykjavík eða Reykjanesbær?
Við í Reykjanesbæ erum „orðin Litla-Reykjavík, leyfi ég mér að fullyrða.“ Þetta sagði Guðný Birna, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, á bæjarstjórnarfundi í vikunni og gæti hér verið um Freudian slip að ræða. Hvort sem hún ætlaði að segja þögla hlutann upphátt eða ekki, þá er því miður margt til í þessu.
Staðreyndin er sú að Reykjanesbær er vissulega að breytast í Litlu-Reykjavík. Staða leikskólamála er einna verst á landinu (verri en í Reykjavík), hér stendur til að 97% af öllum íbúðum sem verða byggðar næsta áratuginn verði í fjölbýli, umferðatafir eru orðnar miklar, fasteignaskattar hafa rokið upp langt umfram verðbólguþróun og fjármálastjórnun sveitarfélagsins að undanförnu orkar tvímælis.
Reykjanesbærinn sem ég ólst upp í – og sem margir Njarðvíkingar og Keflvíkingar þekkja – er ekki sami bær og hann var. Smærri hlutir eins og stolt bæjarbúa virðast á undanhaldi og þátttaka í félagsstarfi hefur víða dvínað. Milli áranna 2006 og 2022 fjölgaði íbúum um 10.000, en kjósendum í sveitarstjórnarkosningum aðeins um 500 á sama tíma. Þar er brýnt að spyrja: Af hverju gengur svona illa að fá fólk til að taka þátt í samfélaginu okkar?
Svo er fíll í herberginu sem fáir þora að snerta á, en það er slagorð bæjarins: „Í krafti fjölbreytileikans“. Þessu slagorði er ekki síst ætlað að snúa því upp í jákvæðan hlut að hér í sveitarfélaginu sé stór hluti bæjarbúa af erlendu bergi. Það að fólk sé af ólíkum uppruna er í eðli sínu hvorki jákvæður né neikvæður hlutur. En það skal samt vera alveg skýrt að samfélög styrkjast aðeins ef fólk sem flytur inn tileinkar sér siði, venjur og hefðir heimamanna og tekur virkan þátt. Annars endar þú með mismunandi hópa í sínum mismunandi hornum og þátttaka í samfélaginu minnkar, eins og þessar kjörsóknartölur benda sterklega til.
Sveitarfélagið er að mínu mati ekki jafn samheldið og það var á árum áður. Það á að vera hlutverk allra bæjarfulltrúa og bæjarbúa í Reykjanesbæ að hjálpast að við að auka þátttöku bæjarbúa, forða okkur frá því að verða eins og Reykjavík og sækja fram með stolti.
Það má ekki misskilja mig. Það er vissulega margt jákvætt í gangi í sveitarfélaginu, en því miður er mín uplifun sú að heildarþróunin sé heilt yfir mjög slæm.
Hermann Nökkvi Gunnarsson,
Höfundur er 23 ára Suðurnesjamaður.




