Flugger
Flugger

Aðsent

Landgræðslustarf Stóru-Vogaskóla í fjóra áratugi frá 1984 til 2024
Föstudagur 14. júní 2024 kl. 06:11

Landgræðslustarf Stóru-Vogaskóla í fjóra áratugi frá 1984 til 2024

Stóru-Vogaskóli í Vogum er vel í sveit settur til umhverfiskennslu. Við húsvegginn er góð útivistarfjara og einnig lífrík tjörn, Vogatjörn. Landið umhverfis er mólendi, víða með jarðvegssárum, sem þörf er á að græða upp. Mörg þeirra sára eru í göngufæri frá skólanum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nemendur hafa með aðstoð kennara og annarra starfsmanna skólans, sinnt uppgræðslu nær samfellt í fjóra áratugi. Á vorin er einum kennsludegi varið til þeirrar vinnu. Þá er grasfræi sáð, áburði dreift og trjáplöntur gróðursettar. Áhugasamir starfsmenn hafa staðið fyrir  grassáningunni, Særún Jónsdóttir kennari  hefur allan tímann verið þar fremst í flokki. Í samvinnu við Landgræðsu- og skógræktarfélagið Skógfell í Vogum hafa verið gróðursettar trjáplöntur í rýrt mólendi, síðustu tvo áratugi við Háabjalla.

Stóru-Vogaskóli er Grænfánaskóli. Starfandi er umhverfisnefnd í skólanum, skipuð nemendum og kennurum. Í umhverfisstefnu skólans sem lesa má á vef skólans hér , segir meðal annars: „Við græðum upp land og ræktum skóg. ... Nemendur í 1.– 4. bekk Stóru–Vogaskóla vinna við landgræðslu einn dag í lok skólaárs.“ Fyrstu árin sá sveitarfélagið um að útvega áburð og grasfræ, en lengst af hefur Landgræðsla ríkisins lagt til áburð og fræ. Á sama tíma vinna 5.- 7. bekkingarH að gróðursetningu með trjáplöntur frá Yrkju.

Að auki hefur rusl verið flokkað, undir stjórn umhverfisnefndar skólans.  Leitast er við að spara orku og henda sem minnstu af mat og læra sem mest um umhverfið. Einn vordag fara allir út og hreinsa rusl í og við þéttbýlið í Vogum. Nemendur kalla daginn rusladag.

Stóru-Vogaskóli fékk Landgræðsluverðlaunin 2014. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn að Minni-Borg í Grímsnesi 22. ágúst. Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti þar ávarp og sagði meðal annars:

„Við erum hér til að heiðra fólk sem hefur lagt á sig mikla vinnu við að vernda og bæta landið. ...

Við erum líka með fulltrúa fræðslu og þekkingar í röðum verðlaunahafa og það er vel við hæfi að það sé Stóru-Vogaskóli. Þar er löng hefð fyrir fræðslu og margþættu starfi á sviði hvers kyns landverndar í umhverfi sem mótað er af náttúruöflum, eldgosum, jarðskjálftum, veðráttunni og síðast og ekki síst hafinu. Það er áskorun að tengja unga fólkið okkar við landið sitt, að fara um það, snerta það og skilja hvernig með það er best farið. Stóru Vogaskóli hefur fetað þá braut af öryggi og vil ég óska skólanum innilega til hamingju með verðlaunin.“

Árangur landgræðslustarfs í skólanum er ekki bara grænir og grónir blettir úti um móa heldur líka ungt fólk sem skynjar þörfina á að hlúa að gróðri og hefur lært talsvert til verka á því sviði.

Tekið saman í maí 2024,

Særún Jónsdóttir og Þorvaldur Örn Árnason,
fyrrum kennarar við skólann og formenn umhverfisnefndar.