Framúrskarandi fyrirtæki 2025
Framúrskarandi fyrirtæki 2025

Aðsent

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári
Fimmtudagur 6. nóvember 2025 kl. 10:05

Lagt til að fasteignaskattar hækki ekki á næsta ári

Mikil hækkun fasteignamats á Suðurnesjum

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu.
Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót, sem er ein sú mesta hækkun á landinu. Þetta er veruleg hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu.

Bílakjarninn nóv. 25 MCC
Bílakjarninn nóv. 25 MCC

Slík hækkun þýðir í raun að núverandi fasteignagjöld myndu hækka að sama skapi um 17,2 % ef ekki er brugðist við með breytingum á álagningarstuðli fasteignagjaldanna. Það myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna í Suðurnesjabæ.

Hækkun fasteignamats hefur einnig áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar. Þar er gjaldtakan bundin við fasteignamat, en það er hægt að breyta með ákvörðun bæjarstjórnar til að tryggja sanngirni og jafnræði milli íbúa.

Að standa vörð um heimilin í krefjandi efnahagsumhverfi

Á síðasta fundi bæjarstjórnar, þann 5. nóvember 2025, lögðum við – bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar ásamt Magnúsi S. Magnússyni – fram tvær tillögur við vinnu fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2026.

Á tímum þar sem háir vextir, þrálát verðbólga og mikill kostnaður á húsnæðismarkaði þrýsta á heimilin, viljum við tryggja að sveitarfélagið bæti ekki við þá byrði. Því leggjum við til að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði í Suðurnesjabæ verði óbreyttir árið 2026.

Efnahagslegt ástand hefur verið krefjandi um langt skeið, háir vextir hafa aukið greiðslubyrði heimila, verðbólga hefur dregið úr ráðstöfunartekjum og húsnæðismarkaðurinn er í ójafnvægi. Við teljum að í slíku ástandi beri sveitarfélaginu að sýna samfélagslega ábyrgð og hófsemi í gjaldtöku. Við leggjum því til að fasteignaskattar hækki ekki árið 2026.

Jafnræði í vatnsgjöldum

Önnur tillaga okkar snýr að því að leiðrétta ósanngjarnt misræmi í vatnsgjöldum milli íbúa í Sandgerði og Garði.

Við leggjum til að sveitarfélagið noti sömu reikni stuðla og HS Veitur í Garðshluta við útreikning á köldu vatni, svo allir íbúar greiði samkvæmt sama kerfi. Það er einfaldlega óeðlilegt að íbúar í sama sveitarfélagi greiði gjöld eftir mismunandi reglum – þar sem annars staðar er miðað við fasteignamat, en annars staðar við rúmmetra.

Slíkt misræmi gengur gegn jafnræði og gagnsæi, og Framsókn mun halda áfram að beita sér fyrir því að réttlæti og samræmi ráði í allri gjaldtöku sveitarfélagsins.

Ábyrgð í þágu íbúa

Við fögnum því að bæjarstjórn samþykkti samhljóða að vísa tillögum okkar til frekari vinnu við fjárhagsáætlun 2026. Það er skref í rétta átt – og vonandi merki um að meirihlutinn sé tilbúinn að taka undir ábyrgðina gagnvart íbúum.

Framsókn í Suðurnesjabæ mun áfram standa vörð um heimilin, hagsmuni íbúa og ábyrga fjármálastjórn sem byggir á jafnræði, hófsemi og heilbrigðri forgangsröðun.

Anton Guðmundsson,
Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ

Dubliner
Dubliner