1. maí 2024
1. maí 2024

Aðsent

Í fótspor sjóræningja Tyrkjaránsins 1627
Föstudagur 30. júní 2023 kl. 06:07

Í fótspor sjóræningja Tyrkjaránsins 1627

Um liðna helgi var hér á ferð í Grindavík hópur hollenskra kvikmyndatökumanna að vinna að gerð heimildarmyndar um foringja Tyrkjaránsmanna sem rændu fólki í Grindavík árið 1627.

Upphafið að þessu verkefni má rekja til þess að Hollendingar hafa fengið aukinn áhuga á þátt sínum í sjóránum og siglingum á sautjándu öld þegar þeir voru ein fremsta siglingaþjóð heims. Nú er hollenska ríkissjónvarpið að vinna að fjögurra þátta heimildamyndaröð um einn þekktasta sjóræningja sautjándu aldar, sem var Hollendingur að nafni Jan Janszoon van Harlem. Hann tók síðar upp nafnið Morath Reis eftir að hann snérist til Múhameðstrúar og hóf að stunda sjórán frá borginni Salé í Marokkó á vesturströnd Afríku. Árið 1627 réðst Jan Janszoon til langferða, alla leið að ströndum Íslands þar sem hann tók land í Grindavík og rændi þar nokkrum tugum manna. Margt af þessu fólki var frá Járngerðarstöðum þar að meðal Guðrún Jónsdóttir og tveir bræður hennar, Halldór og Jón. Einnig þrír synir hennar, Jón, Helgi og Héðinn. Tvo bræður Guðrúnar drápu Tyrkir eins og þeir hafa verið kallaðir af Íslendingum þótt fæstir þeirra hafi verið Tyrkir. Guðrún og bróðir hennar, Halldór, voru keypt úr ánauð og komu til Íslands aðeins ári eftir að þeim var rænt. Tíu árum síðar var Helgi, sonur Guðrúnar, keyptur úr ánauð og kom til Íslands. Járngerðarstaðaætt, sem er mjög fjölmenn, rekur ættir sínar til þessa fólks.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hollenska kvikmyndateymið, undir stjórn Marcel Goedhard, dvaldi í nokkra daga á Íslandi við tökur í Grindavík og tók viðtöl við fólk sem ýmist þekkir þessa sögu vel eða eru afkomendur Járngerðarstaðafólksins. Heimildaþættirnir verða alls fjórir. Sögumaður og aðalhandritshöfundur er Abdelkader Benali, þekktur rithöfundur sem er upprunninn í Marokkó en er búsettur í Hollandi. Saga hans er á vissan hátt spegilmynd af ævi Jan Janszoon, hann nemur land í Hollandi og gerist frægur rithöfundur en er þrátt fyrir allt aðkomumaður í framandi menningu Hollands líkt og Jan Janszoon var í Afríku.

Það er áhugavert að vita til þess að margir afkomenda Járngerðarfólksins hafa og vilja halda á lofti þessari sögu sem allt of lítið hefur verið fjallað um. Fyrir nokkrum árum kom út bók á ensku um Tyrkjaránið í Grindavík sem ber titilinn Northern Captives – The story of the Barbary Corsair Raid on Grindavík in 1627 eftir Adam Nichols og Karl Smára Hreinsson. Þessi bók varð til þess að vekja áhuga Hollendinga á þessari sögu. Þess má geta að það var fyrir tilstilli og hvatningu Halls Gunnarssonar, formanns Minja- og sögufélags Grindavíkur, að bókin var skrifuð og gefin út með ríflegum styrk frá Grindavíkurbæ.

Karl Smári Hreinsson.