Flugger
Flugger

Aðsent

Hvers vegna bygging íbúðarhúsa í grænum svæðum myndi skaða umhverfið og samfélagið
Föstudagur 29. mars 2024 kl. 06:07

Hvers vegna bygging íbúðarhúsa í grænum svæðum myndi skaða umhverfið og samfélagið

Reykjanesbær stendur frammi fyrir mikilvægri ákvörðun um framtíð grænna svæða innan bæjarmarkanna. Eitt svæði, afmarkað með rauðum línum á meðfylgjandi mynd, hefur vakið sérstaka athygli. Þetta svæði, sem nú þegar er notað fyrir útivist og íþróttir, er í hættu á að missa sitt eðlilega umhverfi og þau gildi sem þau veita bæjarbúum ef áform um breytingu á landnotkun frá grænu svæði í svæði undir íbúðarbyggð verða að veruleika.

Mynd af svæðinu úr skipulagslýsingu er merkt með rauðum línum.

Svæðið í umræðu er nú notað til margs konar útivistar. Stígurinn sem liggur við hliðina á því, þar sem bæjarbúar nota til útivistar og njóta fegurðar náttúrunnar, myndi glata sínum einstaka sjarma ef íbúðabyggð kæmi í stað gróðursins. Auk þessa myndi þurfa að fjarlægja hluta af frisbígolfvelli í Njarðvíkurskóg sem er vinsælasti frisbígolfvöllur á Suðurnesjum sem og fjallahjólabraut sem er í töluverðri notkun. Bæði eru mikilvægur hluti af frístundalífi íbúa.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þá er hér um að ræða svæði sem bærinn hefur þegar skipulagt sem grænt svæði með framtíðaráætlun um uppgræðslu skógar. Svæði sem nú þegar samanstendur af næstum helming þroskaðra trjáa í Njarðvíkurskógi. Þessi mögulega breyting á skipulagi, frá grænu svæði til svæðis undir íbúðabyggð á einum af fáum stöðum sem ætlað er til undir skóg, er umhugsunarverð.

Mynd af umræddu svæði.

Náttúrufar svæðisins einkennist að mestu af hrauni, sem gerir gróðursetningu trjáa og annars gróðurs erfiðari. Stór hluti af trjám og graslendi eru í þeim hluta sem nú er til umræðu til að byggja á. Þessi blanda af gróðri og hrauni skapar vistkerfi sem er sérstakt fyrir þetta svæði og veitir fjölbreytileika sem er mikilvægur fyrir bæjarlífið og umhverfið í heild sinni.

Að breyta þessu svæði í svæði undir íbúðabyggð myndi ekki aðeins valda óafturkræfum umhverfisskaða heldur einnig rýra lífsgæði íbúa með því að fjarlægja útivistar- og íþróttamöguleika sem þeir hafa vanist og njóta á hverjum degi.

Samfélagið þarf að íhuga vandlega langtímaáhrif slíkrar þróunar og vega og meta gildi grænna svæða á móti þörfum fyrir aukna íbúðarbyggð. Því er mikilvægt að bæjarbúar komi að þessari ákvörðunartöku, þar sem að það er þeirra umhverfi og lífsgæði sem eru í hættu.

Björn Gunnarsson