Rétturinn atvinna
Rétturinn atvinna

Aðsent

Hvar er íbúalýðræðið?
Laugardagur 19. ágúst 2023 kl. 08:16

Hvar er íbúalýðræðið?

Eitt af því sem Píratar og óháðir settu sem aðalstefnumál á stefnuskrá sinni í kosningabaráttunni í síðustu bæjarstjórnarkosningum var íbúalýðræði. Þar sem íbúar í þeim hverfum sem Reykjanesbær samanstendur af gætu komið skoðunum sínum á framfæri og þar með opnað stjórnsýsluna í sátt og samlyndi við íbúa Reykjanesbæjar. Þar mátti líka finna þessa grein: „Ef upp koma stór mál eða ágreiningur um málefni er varðar bæjarfélagið hvort sem það eru skipulagsmál, atvinnumál eða önnur vafamál þá ætti að halda íbúafund um sem væri þá upplýsandi fyrir bæjarbúa um málefnið.“ Þegar líða tók á kosningabaráttuna voru allir hinir flokkarnir farnir að taka undir það að efla þyrfti íbúalýðræði í bæjarfélaginu en hvað svo? Íbúar hafa verið að kalla eftir íbúafundum, t.d. um innflytjendamál, húsnæðisvandamál og fleiri málefni, en þau köll hafa verið hunsuð eða fengið þau svör að slíkur fundur sé ekki á döfinni hjá þeim sem stjórna hér í Reykjanesbæ. Ætlar stjórnsýslan að hunsa allar beiðnir um íbúafundi eða samráð við bæjarbúa? Eru stefnur settar fram korter fyrir kosningar með fögrum orðum en nokkrum mánuðum síðar er allt gleymt og grafið?

Í heimsmarkmiðum Sameinu þjóðanna sem Reykjanesbær hefur haft að leiðarljósi er fjallað um „VELLÍÐAN ÍBÚA“, um aukin lífsgæði og samskipti bæjarbúa sem veitir þá jöfn tækifæri til heilbrigðs lífs og hamingju. Ef íbúalýðræði væri virkt þá ætti bæjarstjórnin/stjórnsýslan að kalla til íbúalýðræðisfunda tvisvar á ári þar sem bæjarstjórn kemur með upplýsingar fyrir bæjarbúa og í framhaldi af þeim fundum gætu íbúar farið í vinnuhópa og unnið tillögur sem væru upplýsandi fyrir stjórnsýslu bæjarins. Ef íbúar kalla eftir íbúafundi þá ætti stjórnsýslan/bæjarstjórn að taka því fagnandi. Þannig mun aðkoma íbúa verða virkari innan stjórnsýslunnar því öll viljum við það besta fyrir bæjarfélagið okkar, þess vegna þurfum við að setja Reykjanesbæ í fyrsta sæti í sátt og samlyndi allra íbúa bæjarins með því að efla beint lýðræði og draga úr miðstýringu valdsins með einhliða ákvarðanatöku. Við íbúar eigum að hafa þann rétt að láta rödd okkar heyrast og taka þátt í okkar nærsamfélagi, tala um hlutina og leita sameiginlegra lausna.

Höfundur: Margrét S Þórólfsdóttir.