Aðsent

Hundrað milljónir króna fyrir Suðurnes
Miðvikudagur 12. júlí 2023 kl. 09:59

Hundrað milljónir króna fyrir Suðurnes

Skötumessan í Garði hefur skilað 100 mkr. til góðra verkefna fyrir fatlaða, fátæka og veika á Suðurnesjum og víðar um land. Meira en 90% af stuðningnum ratað til samfélagsins á Suðurnesjum þar sem Skötumessan hefur stutt við bakið á Geðræktarstöðinni Björginni, NES íþróttafélagi fatlaðra og greitt þúsundir skólamáltíða fyrir börn og unglinga á hverju ári.

Við höldum ótrauð áfram og eftir viku, miðvikudaginn 19. júlí, verður Skötumessan haldin á sal Gerðaskóla í Garði í Suðurnesjabæ. Blásið er til stórskemmtilegrar dagskrá þar sem Gospelkór Fíladelfíu ásamt hljómsveit og hópur sem við köllum Simmi Unnur og félagar ásamt Jóni Ragnari Ríkharðssyni sjómanni sem halda glæsilega tónleika. Að venju verða Dói og Baldvin með nikkurnar, Davíð og Óskar Ívarsson og Páll Rúnar Pálsson frá Heiði í Mýrdal á sínum stað í dagskránni og syngja ættjarðarlög. Guðni Einarsson blaðamaður verður ræðumaður kvöldsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Allt byggir þetta á því að fyrirtæki og fastagestir Skötumessunnar mæta ár eftir ár til að vera hluti af þessum gríðarlega samfélagslega stuðningi. Til þess að allir verði þátttakendur í þeim verkefnum sem styrkt eru á hverju kvöldi afhendum við styrkina í sameiningu í lok kvöldsins. Þannig upplifa allir sig þátttakendur í samfélagslegum stuðningi Skötumessunnar. Við erum öll í þessu saman.

Við viljum hvetja Suðurnesjamenn til að mæta á þessa messuna sem margir horfa til og ekki síður staðsetninguna úti í Garði. Við viljum að heimafólk standi vörð um þessa frábæru skemmtun og verði okkar sterka bakland í stuðningi við fjölbreytt verkefni.

Eins og áður eru miðar seldir í forsölu og við stillum miðaverði í hóf eins og áður. Miðinn kostar 6.000 kr. og til að tryggja sér miða er lagt inn á reikning Skötumessunnar:

0142-05-70506, kt. 580711-0650