Flugger
Flugger

Aðsent

Hert útlendingalöggjöf
Föstudagur 21. júní 2024 kl. 06:03

Hert útlendingalöggjöf

Alþingi samþykkti í síðustu viku ný útlendingalög. Gerðar eru mestu breytingar á lögum um útlendinga frá því að lögin voru sett árið 2016. Löggjöfin er færð nær því sem gildir á Norðurlöndum og íslenskar sérreglur afnumdar. Ísland hefur tekið hlutfallslega á móti flestum hælisleitendum í Evrópu. Ástæðan er veikt regluverk. Þessu hefur verið breytt með nýju lögunum. Rúmlega 60% þjóðarinnar telur að of margir flóttamenn hafi fengið hæli hér á landi. Á Suðurlandi og Reykjanesi er þessi tala 80%. Sérstakt fagnaðarefni er að regluverkið í útlendingamálum hefur nú verið hert. Nýju lögin svara kalli þjóðarinnar. Með nýju lögunum mun hælisleitendum fækka. Draga mun úr  álagi á félagslega kerfinu og innviðum í landinu. Kostnaður ríkissjóð mun að sama skapi lækka en hann hefur farið úr öllum böndum. Suðurnesin hafa ekki farið varhluta af þessu álagi og þá sérstaklega Reykjanesbær, á því mun verða breyting til hins betra. Útlendingafrumvarpið var samþykkt á Alþingi með 42 atkvæðum. Píratar voru á móti. Samfylking og Viðreisn sátu hjá. Athygli vakti að þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar, búsettir í Reykjanesbæ, sátu hjá. Þeim ætti að vera kunnugt um óánægju íbúa með stöðu útlendingamála.

Áhyggjuefni er að Samfylkingin, sem mælst hefur stærsti stjórnmálaflokkurinn í könnunum, skuli hvorki hafa burði né vilja til að styðja herta löggjöf í útlendingamálum. Í febrúar sagði formaður Samfylkingarinnar í ræðu á Alþingi að hún tæki mark á áhyggjum almennings í útlendingamálum. Þegar á hólminn var komið var ekki að marka þau orð. Samfylkingin stóð ekki með almenningi og sat hjá í atkvæðagreiðslunni. Engin rök mæla með því að Ísland, fámennasta land Evrópu, skuli taka á móti hlutfallslega flestum hælisleitendum. Örugg landamæri eru forsenda velferðarkerfis, sjálfbæra ríkisfjármála og traustra innviða. Regluverkið á Íslandi í útlendingamálum verður að taka mið af fámenni þjóðarinnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Birgir Þórarinsson
Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og situr í flóttamannanefnd Evrópuráðsins.