Sbarro
Sbarro

Aðsent

Hælisleitendamál í ólestri
Þriðjudagur 20. október 2020 kl. 09:56

Hælisleitendamál í ólestri

„Ertu að yfirgefa landið þitt í leit að betri lífskjörum? Ertu að yfirgefa landið þitt í leit að vinnu? Þetta eru ekki löglegar ástæður fyrir því að fá alþjóðlega vernd í Noregi. Þér verður vísað til baka“. Þetta er texti úr auglýsingu sem norsk stjórnvöld birta á helstu netmiðlum. Auk þess er því komið á framfæri í auglýsingunni að reglur hafi verið hertar í Noregi. Danir hafa birt áþekkar auglýsingar. Árið 2004 var 48 tíma reglan við afgreiðslu umsókna tekin upp í Noregi til að draga úr tilefnislausum umsóknum og gera kerfið skilvirkara.

Ríkisstjórn sósíaldemókrata í Danmörku ræðir að ekki verði tekið við hælisleitendum á danskri grundu heldur í móttökustöð í Norður-Afríku til að girða fyrir að fólk leggi á sig hættuferð á manndrápsfleytum yfir Miðjarðarhafið. Fyrir fáeinum árum komu 6.000 hælisleitendur að landamærum Noregs frá Rússlandi á nokkrum vikum. Eru stjórnvöld hér á landi viðbúin því að fá slíkan fjölda umsókna á fáeinum vikum? 

Dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi nú í vor um breytingu á lögum um útlendinga. Frumvarpinu er ætlað að gera stjórnvöldum kleift að afgreiða skjótt og örugglega umsóknir sem leiða ekki til veitingar alþjóðlegrar verndar. Frumvarpið náði ekki fram að ganga vegna ósættis í ríkisstjórninni. Brýnt er að einfalda og hraða málsmeðferð umsókna svo að auka megi skilvirkni og stytta málsmeðferðartíma.

Á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft hælisleitendamálin á sinni könnu um árabil. Hann sýnist skorta nauðsynlega festu og hefur ekki reynst fær um að taka á vandanum. Stjórnsýslan ræður ekki við að afgreiða umsóknir innan viðunandi frests og beinn kostnaður við framfærslu hælisleitenda eykst hratt. Á þessu ári kostar hann skattgreiðendur fjóra milljarða og fer ört hækkandi. Þögn ríkir um óbeinan kostnað. Samkvæmt tölum flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, er fyrir kostnað af hverjum hælisleitenda sem kemur til Vesturlanda hægt að hjálpa a.m.k. tíu til tólf manns í heimalandi.

Okkur ber að aðstoða nauðstadda eftir föngum að teknu tilliti til fámennis þjóðarinnar. Koma ber í veg fyrir að móttökukerfi hælisleitenda sé misnotað með röngum upplýsingum og tilhæfulausum umsóknum.

Ísland hefur ekki farið að fordæmi Dana og Norðmanna og auglýst strangt regluverk í útlendingamálum vegna þess að á Íslandi eru útlendingamálin í ólestri, m.a. vegna stefnuleysis, ófullnægjandi stjórnsýslu og lagaþræta á kostnað skattgreiðenda. Á vettvangi stjórnmálanna dugir ekki að hlaupast undan merkjum réttarríkisins af ótta við háværan minnihluta.

Birgir Þórarinsson,
alþingismaður Miðflokksins.