Karlakór Keflavíkur
Karlakór Keflavíkur

Aðsent

Grindavík í öndunarvél
Föstudagur 3. maí 2024 kl. 06:15

Grindavík í öndunarvél

Ég er Grindvíkingur, kenndur við Sæból en bý í dag í húsi sem heitir Brimnes. Ég hef alla mína hunds- og kattartíð búið í Grindavík. Ég hef talsvert látið í mér heyra á undanförnum mánuðum og tjái skoðun mína hikstalaust á Facebook. Ég hef verið mjög ósáttur við það ægivald sem Almannavarnir hafa viðhaft síðan hamfarirnar áttu sér stað 10. nóvember. Ég tek fram að það var mjög eðlileg ákvörðun á þeim tímapunkti að rýma bæinn en ég vil meina að íbúar hefðu getað flutt inn nokkrum dögum síðar. Fólki var hleypt inn í bæinn með viðbragðsaðilum og hafði fimm mínútur til að sækja helstu nauðsynjar og ég veit að sumir bæjarbúar lentu í vopnuðum sérsveitarmönnum á fyrstu dögunum, ég varð vitni að slíku. Það voru auðvitað bara mistök en samt þrætir ríkislögreglustjórinn ennþá fyrir að sérsveitarmenn hafi borið vopn þegar þeir voru kallaðir til starfa í Grindavík. Það skiptir samt ekki neinu máli núna.

Myndir frá gerð varnar- og leiðigarða við Grindavík. Myndin hér að ofan var tekin í lok apríl en myndin að neðan í lok febrúar. VF/Hilmar Bragi

Blessunarlega hafa Almannavarnir lært eitthvað af þessu öllu og sem betur fer taka rýmingarnar skemmri tíma í dag en í byrjun. Ég vil reyndar meina að alger óþarfi sé að rýma bæinn þó svo að það gjósi lengst fyrir utan varnargarðana en ég er til í að beygja mig undir slíka ákvörðun ef rýmingin tekur bara einn til tvo sólarhringa.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Glaður í bragði og gríðarleg vonbrigði

Ég fylltist bjartsýni fyrir hönd Grindavíkur þegar stofnaður var hópur eða hreyfing og samhliða stofnuð Facebook-grúbban Aftur heim. Mér finnst nafn grúbbunnar kannski ekki vera alveg nógu lýsandi því ég held að langflestir Grindvíkingar vilji á endanum flytja aftur heim. Ég hefði frekar skýrt þessa grúbbu Aftur heim á árinu 2024 eða eitthvað álíka en það er önnur saga. Ég mætti á samstöðufund sem haldinn var á Papas þriðjudaginn 9. apríl. Mikill hugur var í fólki og ríkti bjartsýni á meðal okkar um að hópurinn myndi ná eyrum bæjarfulltrúa og nýr hljómur myndi fara heyrast en aðal krafan er að ráðist verði í lagfæringar á bænum sem fyrst, hann gerður öruggur til búsetu og stefnan verði sett á að skóla- og leikskólahald hefjist í haust.

Ég fór kátur heim þetta kvöld, bjartsýnn á komandi tíma og sofnaði glaður í bragði. Þess vegna voru mér gríðarleg vonbrigði þegar fréttist af fundi bæjarstjórnar Grindavíkur en þar lögðu Hjálmar Hallgrímsson og Gunnar Már Gunnarsson fram bókun sem fjallaði um að hefja lagfæringar á bænum sem fyrst, athuga möguleikann á að gamla skólanum verði komið í starfhæft ástand og STEFNT yrði á að skólahald hefjist næsta haust. Eins átti þá að kanna möguleikann á að koma öðrum leikskólanum líka í stand en auðvitað væri hægt að hafa skóla og leikskóla undir sama þaki þetta fyrsta ár, það myndi einfalda allt til muna.

Ég setti orðið stefnt með hástöfum því bókunin fjallaði bara um það, að stefna á þetta. Ákvörðun átti að geta legið fyrir í lok maí og þá yrði ákvörðun tekin. Hvernig þær fimm konur sem mynda bæjarstjórnina ásamt Hjalla og Gunna, gátu ekki sett nafn sitt við þessa bókun er mér hulin ráðgáta. Með því voru þær nánast að segja að það eigi að slökkva ljósin í Grindavík og ekkert verði gert fyrr en að atburðinum liðnum, sem gæti orðið eftir tugi ára þess vegna. Ég spyr mig að ef Grindavíkurbær er ekki að fara vera með svona þjónustu, hvað er þá bæjarstjórnarfólkið að fara gera? Ég er vanur að taka til hendinni og þiggja laun fyrir, mér myndi ekki líða vel að þiggja laun frá Grindavíkurbæ fyrir að standa í vegi fyrir uppbyggingu bæjarins.

Mér hafa fallist hendur

Ég hef fylgst með framkvæmdum við varnargarðana og verð að segja að mér hafa fallist hendur að undanförnu. Það var vissulega aðkallandi að reisa varnargarða í kringum hitaveituna í Svartsengi og þeir garðar risu á örskömmum tíma og voru verktökum til mikils sóma. Framkvæmdir við varnargarðana við Grindavík hófust ekki strax en blessunarlega voru þeir komnir upp áður en gaus við Grindavík 14. janúar. Það er deginum ljósara að þeir björguðu því sem bjargað var. Þetta var 14. janúar. Á sumardaginn fyrsta síðastliðinn fimmtudag var 25. apríl. Það gera ef mér reiknast rétt til, 102 dagar, tæpar fimmtán vikur. Á sumardaginn fyrsta var verið að vinna við varnargarðinn nánast þar sem hann endar vestan meginn við bæinn. Fyrir þá sem ekki átta sig, þá er þetta við Nesveginn sem liggur vestur á Reykjanes, á túninu sem var þar fyrir neðan og hestar bitu gras á yfir sumarið. Þegar ég var á rúntinum kvöldið eftir á Fornuvör, sem er næsta gata sem liggur við þessa varnargarða, var ennþá verið að vinna. Þarna var sem sagt unnið á frídegi sumardaginn fyrsta og í næturvinnu á föstudagskvöldið. Ég veit ekki hvort framkvæmdum er lokið en allavega voru gröfur og búkollu-vörubílar í fríi þegar mig bar að garði á laugardaginn. Ég vek athygli á að mig grunar að útseldur taxti með manni, hljóti að vera á bilinu 50 til 100 þúsund krónur fyrir utan vsk. Eigum við að segja að verðið hækki um sem nemur sinnum 1,5 í yfirvinnu? Ég prófaði að gamni að telja öll tækin sem eru í Grindavík og sýnist þau vera á bilinu fimmtán til tuttugu. Segjum að þetta séu tuttugu tæki og þau öll í vinnu og útseldur klukkutími í dagvinnu er 100 þúsund krónur. Það eru TVÆR MILLJÓNIR per klukkustund! Tækin hafa verið að allan sólarhringinn sex daga vikunnar, sunnudagur hefur verið frídagur. Það þarf ekki stærðfræðing til að sjá að þessar tölur eru fljótar að verða að hundruðum milljóna og svo milljörðum! Ég vek líka athygli á því að eldgosið er austan megin við bæinn, það var ekkert sem benti til að það myndi byrja gjósa vestan megin og ef hraunið hefði farið að þokast í vesturátt, hafa þessir frábæru verktakar sýnt að þeir geta hent upp svona varnargarði á örskömmum tíma. Ég hefði haldið að nóg hefði verið að vinna þessa vinnu í dagvinnu en það er bara ég en ég spyr, eru þessir verktakar með óútfylltan tékka hjá ríkinu?

Til hvers var hann að þessu?

Það vakti athygli mína á sumardaginn fyrsta þegar ég var að fylgjast með gröfumanninum og vil ég byrja á að lýsa yfir aðdáun minni á hversu klár maðurinn var. Varnargarðurinn þarna virtist vera tilbúinn en hann fór að reyna grafa upp mjög stórt og mikið grjót, já eða kannski ætti frekar að kalla þetta bjarg. Honum tókst ætlunarverkið og bjargið rétt komst ofan í skúffuna. Hann bakkaði aftur upp á varnargarðinn, setti bjargið ofan á búkollu og svo sótti hann nýtt efni og fyllti upp í holuna sem hafði myndast. Þetta tók u.þ.b. fimmtán mínútur og ég hugsaði með mér, til hvers var hann að þessu??? Einhver hefur sagt mér að það eigi að sá í garðana svo gras muni vaxa þarna í framtíðinni og þegar ég tjáði skoðun mína að ég myndi vilja að þessir garðar verði jafnaðir niður að atburðinum loknum, var mér sagt að það yrði örugglega ekki gert. Þessir garðar ættu að þjóna kynslóðunum sem verða uppi eftir kannski 1000 ár eða lengur en síðasti svona atburður var í kringum 1200 segir sagan. Gott og vel. Ég spyr mig, hvað hefur mikill tími farið í svona að mínu mati, óþarfa pillerý? Ég frétti af vinnunni aðeins austar, þar máttu þrír búkolluvörubílar bíða í hátt í klukkustund uppi á garðinum fullhlaðnir á meðan grafan vann úr efninu. Þrjár búkollur sinnum þrjár klukkustundir…

Hvað er búið að spreða miklum fjármunum?

Hvað er búið að spreða miklum fjármunum hér, að mínu mati af algerum óþarfa? Mikið væri ég til í að geta unnið að vild og rukkað fyrir vinnuna eins og mér sýnist.

Á sama tíma er rifist um hver eigi að borga sprunguviðgerðir í Grindavík! Eins og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur, orðaði það, til hvers er verið að eyða milljörðum í varnargarða ef ekkert á að gera í að byggja Grindavík upp að nýju?

Annað sem ég held að verði hægt að spara, hvenær verður þessum öryggispóstum lokað? Í hvert skipti sem maður kemur, er starfsmaður sem tekur niður nafn og kennitölu, hver sem er getur farið inn í bæinn og ég held að það sé kominn tími til að hætta þessum leikaraskap og opna bæinn. Það eru þrír lokunarpóstar, starfsmaður á vaktinni 24/7, eitthvað hlýtur þetta að kosta?

Kæra bæjarstjórnarfólk Grindavíkur og bæjarstjóri.

Mér líður eins og bærinn minn sé í öndunarvél og eini möguleikinn á að hann komist úr henni og til lífs, að róttækar breytingar eigi sér stað. Ekki nema að þið ætlið að flytja strax/sem fyrst til Grindavíkur og ætlið að styðja við uppbyggingu í bænum, eruð þið þá annars til í að segja starfi ykkar lausu?

Ég bið ykkur um að hugsa um Grindavík, þetta er bær sem vill fá að lifa áfram en þið og íslensk stjórnvöld eruð að ganga að honum dauðum.

Með vinsemd og virðingu,
Magnús Gunnarsson,
Sæból í Grindavík.

(Millifyrirsagnir eru blaðsins)