Aðsent

Framtíðin liggur í tækni og þekkingu
Einn af útskriftarhópum Fisktækniskólans með Ólafi J. Arnbjörnssyni, skólameistara.
Sunnudagur 12. desember 2021 kl. 06:17

Framtíðin liggur í tækni og þekkingu

Eins og flestum er kunnugt þá er Fisktækniskóli Íslands í Grindavík framhaldsskóli hér á Suðurnesjum sem hefur m.a. það hlutverk að mennta fólk í haftengdum greinum að loknum grunnskóla og að bjóða fólki á Suðurnesjum nám á framhaldskólastigi á sviði veiða, vinnslu og fiskeldi. Námið er tveggja ára nám í fisktækni og enn fremur er hægt að sérhæfa sig í veiðafæratækni, gæðastjórnunar-, fiskeldis- og Marel-vinnslutækni með því að taka þriðja árið. Gríðarleg eftirspurn er eftir fólki sem hefur sérhæft sig í þessum greinum sjávarútvegsins enda hefur þróunin og nýsköpunin sem átt hefur sér stað innan atvinnugreinarinnar verið ótrúleg á síðustu árum og áratugum.

Mikilvægi bláa hagkerfisins

Það þarf ekkert að fara í grafgötur um það hversu mikilvægur sjávarútvegurinn, fiskeldið og fiskvinnslan er fyrir íslenskan efnahag og framtíð landsins. Bláa hagkerfið er lífæð þessarar þjóðar og mun vera um ókomna tíð, þrátt fyrir óáran og hrun standa þessar atvinnugreinar alltaf upp úr rústunum og koma okkur á lappirnar aftur. Sjávarútvegur og tengdar greinar hafa verið og munu vera áfram hornsteinn íslensks atvinnulífs. Við flytjum út hágæða fiskafurðir til allra heimshorna og á bak við þennan útflutning liggur ótrúleg vinna við markaðssetningu og gríðarmikil þekking sem hefur verið byggð upp á undanförnum árum og áratugum. Þekking á sviði laga, tækni, flutninga, samskipta og þjónustu hefur gert það að verkum að íslenskar fiskafurðir eru taldar til þeirra bestu og eru gífurlega eftirsóttar á diska neytenda út um allan heim.

Í fremstu röð

Við Íslendingar erum í fremstu röð hvað varðar umhverfisvænar veiðar, sjálfbærni veiða og meðferð á afla og athygli umheimsins á þessum þáttum í veiðum og vinnslu hefur aukist mjög á síðustu misserum. Það gerir það að verkum að störf innan bláa hagkerfisins bjóða upp á spennandi starfsmöguleika. Í raun og sann má segja að þessi atvinnugrein sé á hraðri leið í þá átt að verða hátæknigrein sem kallar stöðugt á sérmenntað fólk til starfa. Hér á Suðurnesjum hafa fyrirtæki verið leiðandi í því að auka verðmæti fiskafurða og nægir að nefna þá miklu aukningu sem átt hefur sér stað í vinnslu ferskra fiskafurða sem fluttar eru daglega flugleiðis austur og vestur um haf frá Keflavíkurflugvelli. Eins má nefna fiskeldið sem er atvinnugrein í gríðarmikilli sókn og óvíða eru skilyrði til þess betri en hér á Suðurnesjum. Fyrirsjáanleg er mikil uppbygging í þeirri atvinnugrein hér á svæðinu á komandi árum með tilheyrandi tækifærum.

Menntun er lykilatriði

Fisktækniskólinn tekur við nemendum allan ársins hring og hvetur þá sem standa á krossgötum og eru að velta fyrir framtíðar atvinnumöguleikum hér á svæðinu að skoða hvað skólinn hefur upp á að bjóða. Það er ljóst að vel menntað starfsfólk er lykilatriði til að halda okkar sterku stöðu í samkeppni þjóða og þar leggur Fisktækniskólinn sín lóð á vogarskálar.

Starfsfólk Fisktækniskóla Íslands.