Aðsent

Fræðslufundur um sykursýki í kvöld í boði Lions
Fimmtudagur 14. nóvember 2019 kl. 14:04

Fræðslufundur um sykursýki í kvöld í boði Lions

Lions International eru fullkomnlega óháð góðgerðasamtök sem telja um 1,4 milljónir félaga. Hreyfingin varð 100 ára árið 2017 og af því tilefni var ákveðið að á næstu 100 árum yrði sérstök áhersla lögð á sykursýki. Vorið 2019 var landssöfnunin Rauð fjöður helguð kaupum á augnbotnamyndavélum fyrir Innkirtladeild Landspítala og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Nú um næstu helgi munu Lionsklúbbar um allt land standa fyrir hefðbundnum skimunardegi í tengslum við alþjóðadag sykursýki.

Styðjum gott málefni
Lionsklúbburinn í Keflavík státar af langri sögu um öflugan stuðning við góð málefni í heimabyggð. Klúbburinn hefur nú, í takt við áherslur Lions, tekið höndum saman með Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Janusi heilsueflingu til þess að vekja athygli á sykursýki, forvörnum og úrræðum. Klúbburinn tók þátt í Heilsu- og forvarnarviku Suðurnesja með því að standa fyrir vel heppnaðri gönguferð um gamla bæinn í Keflavík þann 2. október sl. og næsta verkefni er fræðslufundur fyrir almenning á Alþjóðadegi sykursjúkra þann 14. nóvember. Fræðslufundurinn verður á Radisson Park Inn í Keflavík og hefst kl. 19:30. Hann er opinn öllum meðan húsrúm leyfir og boðið verður upp á fjölbreytta fyrirlestra um ýmsa þætti er tengjast sykursýki en um leið minnt á þá mikilvægu og góðu þjónustu sem HSS býður upp á fyrir Keflvíkinga og Suðurnesjabúa. Á laugardeginum 16. nóvember verður svo árleg skimun vegna sykursýki í samvinnu við aðra Lionsklúbba á svæðinu.

Að lokum, ef þig langar að leggja lið í nærumhverfi þínu er Lions kjörin nútímalegur vettvangur – við tökum vel á móti ykkur, jafnt konum sem körlum á öllum aldri – við hlökkum til að sjá þig. Nánar á facebook síðu klúbbsins https://www.facebook.com/lionskef/

Rafn Benediktsson,
Formaður Lionsklúbbs Keflavíkur

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs