Byko 11-13 sept opnunarhátíð
Byko 11-13 sept opnunarhátíð

Aðsent

Farsældarráð Suðurnesja, þegar allir róa í sömu átt
Föstudagur 12. september 2025 kl. 10:44

Farsældarráð Suðurnesja, þegar allir róa í sömu átt

Suðurnesin eru góður staður fyrir börn og fjölskyldur. Við eigum öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf, metnaðarfulla skóla, framsækna heilbrigðisþjónustu og fjölbreytt félagsstarf. Sveitarfélögin hafa í gegnum árin lagt ríka áherslu á velferð barna og það sést í þeirri góðu þjónustu sem við höfum byggt upp.

Tímamót urðu þann 23. júní þegar fyrsta Farsældarráð á Íslandi var stofnað hér á Suðurnesjum. Ráðið er afrakstur markvissar vinnu sveitarfélaganna og þjónustustofnana sem vinna að velferð barna á svæðinu. Með þessu skrefi er landshlutinn okkar í forystu við innleiðingu farsældarlagannna og nýsköpunar í þjónustu við börn og fjölskyldur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Hvað er farsæld?

Farsæld snýst um að tryggja öllum börnum sömu tækifærin til að dafna og þroskast. Samkvæmt farsældarlögunum, sem tóku gildi 2021, eiga öll börn rétt á samþættri þjónustu sem mætir þörfum þeirra. Í stað þess að fjölskyldur hlaupi milli kerfa og stofnana þegar vandi kemur upp, eiga kerfin að vinna saman. Farsældarráðið mun því leggja sérstaka áherslu á snemmtæka íhlutun, forvarnir, heildstæða þjónustu og þátttöku barna.

Ráðið er samráðsvettvangur sem styður þjónustuveitendur við að uppfylla þessi mikilvægu markmið. Ráðið fæst ekki við einstök mál barna heldur horfir á heildarmyndina: Hvernig getum við samræmt vinnubrögð? Hvar þurfum við að styrkja þjónustuna? Hvernig tryggjum við að engin börn falli milli kerfa?

Öflugt teymi, eitt markmið

Farsældarráðið færir saman 25 fulltrúa frá öllum helstu stofnunum og samtökum sem vinna í þágu barna. Sveitarfélögin fjögur, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Grindavíkurbær og Vogar, leiða þessa samvinnu ásamt Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þátttaka Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Heilsugæslu Höfða tryggir að heilbrigðisþjónusta sé samþætt inn í starfið. Fjölbrautaskóli Suðurnesja kemur með sýn framhaldsskólastigsins, lögreglustjóri og sýslumaður tryggja tengingu við réttarkerfið, og íþrótta- og æskulýðsfélög ásamt foreldrafélögum koma með reynslu úr frístundastarfi og frá fjölskyldum. Ekki síst eiga börnin sjálf sterka rödd í ráðinu gegnum fulltrúa ungmennaráða sveitarfélaganna.

Þetta víðtæka samstarf er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og verður fyrirmynd fyrir aðra landshluta. Ráðið mun funda reglulega og er vinna þegar hafin við að kortleggja stöðu barna í landshlutanum og þá þjónustu sem er til staðar. Í framhaldi verður unnin aðgerðaáætlun til fjögurra ára með skýrum markmiðum. Við munum fylgjast vel með því hvort það sem við gerum skili árangri fyrir börnin, því það er það sem skiptir máli.

Vertu með!

Suðurnes hafa lengi verið virk í þróun og nýsköpun á sviði mennta- og velferðarmála. Verkefni eins og Velferðarnet Suðurnesja, "Höldum glugganum opnum" og Öruggari Suðurnes hafa sýnt fram á gildi samvinnu og framsýni þjónustuveitenda. Farsældarráðið nýtir þennan sterka grunn og þekkingu fagfólks í landshlutanum.

Farsæld barna er sameiginlegt verkefni sem krefst þátttöku allra í samfélaginu okkar. Með góðri samvinnu getum við tryggt að öll börn á Suðurnesjum fái þann stuðning sem þau þurfa til að dafna og þroskast.

Farsældarráðið vill gjarnan heyra frá íbúum Suðurnesja. Hvað finnst þér að við séum að gera vel? Hvar getum við gert betur? Hvaða tækifæri sérðu fyrir börnin okkar? Hafðu samband með því að senda tölvupóst á [email protected].

Hjördís Eva Þórðardóttir,
verkefnastjóri farsældar hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.