FKA Suðurnes
Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) var stofnað árið 1999. Markmið félagsins er skýrt og einfalt; að byggja upp og viðhalda þéttu tengslaneti kvenna um allt land ásamt því að auka áhrif kvenna í atvinnulífinu og sýnileika þeirra.
Þetta eru mikilvæg markmið en við konur höfum nefnilega gegnum tíðina þurft að vera öflugri, betri og jafnvel háværari til að fá sæti við borðið. Það til lengdar tekur á en sem betur fer lifum við í landi þar sem jafnrétti er mikilvægt og meiri að segja sett í skilmála ýmissa stjórna. Þar sem áður sátu fimm karlar í stjórn, verður nú að vera kynjahlutföll að minnsta kosti 40/60. Þessu ber að fagna en við konur þurfum líka sterkt bakland sem FKA er, stuðningsnet faglegra og flottra kvenna í allskonar atvinnu, um allt land.
Innan FKA eru einnig fjöldamargar nefndir sem konur geta nýtt sér. Má þar meðal annars nefna nýsköpunarnefnd, golfnefnd, alþjóðanefnd og FKA framtíð auk fjölda annarra. Einnig eru mikilvægu landsnefndirnar sem skipta miklu máli fyrir konur á landsbyggðinni. FKA Suðurnes er ein þeirra nefnda. FKA Suðurnes deildin var stofnuð árið 2021 í Duus húsum og Eliza Reid, þáverandi forsetafrú kom og heiðraði okkur með komu sinni.
Síðan þá hefur deildin einbeitt sér að því að auka tengslanet kvenna á Suðurnesjum, heimsækja fyrirtæki kvenna, haldið ýmis erindi og fræðslu auk annarra fróðlegra viðburða. Mikið hefur verið brallað saman og andinn er einstakur.
Nú fram undan er nýtt starfsár FKA Suðurnes sem hefst þann 18. ágúst næstkomandi með aðalfundi félagsins. Á dagskrá verða hefðbundin aðalfundarstörf auk annarra mála. Steinunn Snorradóttir (Denna), varaformaður FKA Suðurnes verður með erindi um markmiðasetningu og stækkun þægindarammans og formaður FKA Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir verður með ávarp. Léttar veitingar verða í boði.
Stjórn FKA Suðurnes hvetur áhugasamar konur að koma og kynna sér starfsemi félagsins. Tekið verður á móti nýjum umsóknum um stjórnarkonur til að leiða starfið 2025-2026.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Fyrir hönd stjórnar FKA Suðurnes,
Guðný Birna formaður.