Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Aðsent

Fjölmiðlaumfjöllun án samhengis þjónar ekki baráttu fyrir jöfnuði
Föstudagur 22. ágúst 2025 kl. 10:30

Fjölmiðlaumfjöllun án samhengis þjónar ekki baráttu fyrir jöfnuði

Grein frá stjórn Fimleikadeildar Keflavíkur

Í vikunni birtist frétt á dv.is sem byggði á færslu frá Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins, þar sem gagnrýnd voru æfingagjöld í fimleikum í Reykjanesbæ. Í færslunni var dregin fram há heildartala fyrir eitt fimleikaár og gefið í skyn að börn í fimleikum væru aðeins börn efnameiri foreldra.

Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona
Optical Studio 15, 18, 20, 22, 25, 27, 29. ágúst 1-6 sept kona

Við teljum afar mikilvægt að leiðrétta þá mynd sem slík framsetning gefur – ekki til að verja okkur, heldur til að tryggja að umræðan byggi á staðreyndum og samhengi. Það er sérstaklega mikilvægt þegar einstaklingur með áhrif, eins og formaður stærsta verkalýðssambands landsins, setur fram einhliða og óstaðfesta gagnrýni á starf einnar íþróttadeildar.

Fimleikar eru flókin íþrótt – með mikilli faglegri ábyrgð

Fimleikar krefjast mikils af bæði börnum og þjálfurum. Æfingar eru margar, langar og sérhæfðar. Öryggiskröfur eru háar og þjálfarar þurfa menntun og færni til að vinna með börnum í krefjandi og líkamlega erfiðu umhverfi.

Flestir hópar hjá Fimleikadeild Keflavíkur eru með tvo þjálfara og hámark 12 iðkendur í hóp. Þetta hlutfall er langt frá því sem þekkist í mörgum öðrum íþróttum, þar sem tugir barna æfa saman undir stjórn örfárra þjálfara.

Þegar borið er saman hvað iðkandi fær fyrir gjöldin – í formi klukkutíma, einstaklingsmiðaðrar kennslu, tækja og aðstöðu – verður kostnaðurinn mun skiljanlegri.

Klukkutímaverð: Keflavík lægra en önnur félög á höfuðborgarsvæðinu

Samanburður á opinberum verðskrám sýnir að fimleikanám í Keflavík er í öllum tilfellum ódýrara en hjá félögum á höfuðborgarsvæðinu:

Klukkustundir Gerpla Keflavík Mismunur
1 klst. 2.788 kr. 2.425 kr. -363 kr.
10 klst. 700 kr. 607 kr. -93 kr.
Klukkustundir Björk Keflavík Mismunur
50 mín. 3.069 kr. 2.500 kr. -569 kr.
11 klst. 680 kr. 573 kr. -107 kr.
Klukkustundir Stjarnan Keflavík Mismunur
45 mín. 3.500 kr. 2.500 kr. -1.000 kr.
2 klst. 2.635 kr. 2.125 kr. -510 kr.
Klukkustundir Ármann (2024) Keflavík Mismunur
1 klst. 2.740 kr. 2.425 kr. -315 kr.
9,6 klst. 802 kr. 629 kr. -173 kr.



Við erum þó meðvituð um að árgjaldið í fimleikum er hátt – en að baki því stendur kostnaður við mikinn fjölda þjálfara og annarra fagmanna sem starfa með börnunum.

Gjöldin fara beint í laun og rekstur – ekki í „feita sjóði“

Allir þjálfarar fimleikadeildarinnar eru launþegar – engin gerviverktaka er til staðar. Æfingagjöldin fara beint í launakostnað og rekstur. Við gerum okkar besta til að enda árið réttum megin við núllið.

Launakröfur á markaði gera það að verkum að ekki er svigrúm til að greiða þjálfurum betur nema hækka gjöldin. Auk þess greiðir deildin leyfisgjöld til Fimleikasambands Íslands af hverjum iðkanda og þjálfara, auk kostnaðar vegna námskeiða sem hlaupa á hundruðum þúsunda á ári.

Ekki allir hópar kosta það sama

Við bjóðum upp á ódýrari hópa með færri og styttri æfingum fyrir þau börn sem ekki hafa vilja eða getu til að stunda afreksíþróttir. Með nýju húsnæði við Keili á Ásbrú mun framboð fjölbreyttari hópa aukast enn frekar.

Gjöldin eru fyrir heilt ár – með styrk frá bænum

Heildarupphæðin sem vitnað var í á Facebook er fyrir 11 mánaða æfingatímabil. Foreldrar hafa möguleika á greiðsludreifingu og Reykjanesbær veitir 45.000 kr. hvatastyrk fyrir börn og ungmenni 4–18 ára. Við hvetjum alla foreldra til að nýta sér styrkinn.

Sum íþróttafélög skipta önninni upp í fleiri greiðslur, sem getur látið kostnaðinn virðast lægri, en heildarkostnaðurinn verður oftar en ekki hærri þegar allt er reiknað saman.

Okkar markmið er skýrt: Íþróttir fyrir öll börn

Við deilum áhyggjum af því að aðgengi barna að íþróttum sé ójafnt. Þess vegna vinnum við markvisst að því að halda gjöldum í lágmarki, veita afslætti og koma til móts við fjölskyldur sem eiga í erfiðleikum. Enginn á að vera skilinn eftir vegna efnahags.

Við biðjum því um ábyrgð í umræðu. Þeir sem vilja ræða jöfnuð í íþróttum verða að byggja málflutning á gögnum og staðreyndum. Það er hvorki sanngjarnt né uppbyggilegt að mála fimleikadeild Keflavíkur sem andstæðu jöfnuðar – þegar raunin er sú að við vinnum hörðum höndum að því að gera fimleika að íþrótt fyrir öll börn.

Áfram Keflavík!

f.h. fimleikadeildar Keflavíkur
Eva Hrund Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri