Aðsent

Fimleikar fyrir alla íbúa á Suðurnesjum
Föstudagur 30. ágúst 2024 kl. 06:00

Fimleikar fyrir alla íbúa á Suðurnesjum

Fimleikadeild Keflavíkur var stofnuð árið 1985 og verður stórafmæli á næsta ári. Starfsemi hófst í íþróttahúsinu í Myllubakkaskóla og færðist svo í íþróttahúsið á Sunnubraut og þaðan í framhaldinu var farið í Akademíuna. Hafin er hönnun á nýju fimleikahúsi sem mun rísa á næstu árum en húsnæðið mun einnig þjónusta miklu meira en fimleika, svokallað fjölnota íþróttahús. Við hlökkum til þegar við tökum fyrstu skóflustunguna sem fyrst.

Fimleikadeild Keflavíkur hefur stækkað mikið á þessu ári, í vor fórum við af stað með hóp á morgnana fyrir ungabörn og foreldra til að eiga gæðastund í fimleikasalnum með krílin í fæðingaorlofi. Hópurinn er stór og mun fimleikadeildin bjóða upp á þessa þjónustu aftur í haust. Krílafimleikar fara af stað eftir Ljósanótt en það eru börn á aldrinum eins til fjögurra ára og munu þau leika sér í nýrri þrautabraut með þjálfurum og foreldrum, þetta verður skemmtilegur hópur og gaman að segja frá því að við erum að bjóða yngri börnum að byrja í fimleikadeildinni. Í haust bætist við hópur fyrir börn með sérþarfir en sá hópur var í fimleikum og verður ánægjulegt að taka á móti honum aftur. Fimleikadeild Keflavíkur hefur ráðið þroskaþjálfa til þjálfunar og verða tímarnir á sunnudögum í vetur. Börn eru misjöfn og sumir eru í fimleikum til að ná langt og keppa en önnur börn vilja koma og hreyfa sig í skemmtilegu umhverfi og hafa gaman, það er velkomið og þá geta börnin komið í hóp sem er kallaður fimleikar fyrir alla og þá þarf engin að keppa.

Optical Studio
Optical Studio

Fimleikadeild Keflavíkur býður upp á hópfimleika og áhaldafimleika fyrir allan aldur og eru flestir þar frá átta til átján ára, bæði stelpur og strákar.

Fimleikadeildin ætlar svo sannarlega að bjóða alla íbúa á Suðurnesjum velkomna og þá er fullorðna fólkið eftir, deildin mun bjóða upp á létta leikfimi með áherslu á teygjur og liðleika á morgnana fyrir 67 plús eða Betri borgara sem geta þá einnig notað Hvatagreiðslur frá Reykjanesbæ fyrir sína heilsurækt. Allir Betri borgarar velkomnir í vetur í fimleikadeild Keflavíkur.

Fimleikadeild Keflavíkur hlakkar til að sjá alla gamla og nýja iðkendur ásamt foreldrum og ömmum og öfum í vetur í fimleikum.

Fimleikadeild Keflavíkur