Sporthúsið
Sporthúsið

Aðsent

Eflum heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Fimmtudagur 23. september 2021 kl. 09:36

Eflum heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum

Undanfarnar vikur hef ég ferðast um Suðurkjördæmi með Birgi Þórarinssyni, alþingismanni af Suðurnesjum. Okkur hefur hvarvetna verið vel tekið og reynt að hlusta eftir því sem brennur á íbúum. Ákall Suðurnesjamanna um eflingu heilbrigðisþjónustu á svæðinu stendur þar upp úr. Það verður að teljast með ólíkindum að framlög hins opinbera til heilbrigðisþjónustu eru lægri á íbúa en almennt gerist á landsbyggðinni og úr öllum takti við fólksfjölgun á svæðinu. Aðeins ein heilsugæslustöð er í Reykjanesbæ, engin í Suðurnesjabæ og engin í Vogum á Vatnsleysuströnd. Hvert eiga íbúar að snúa sér til að fá nauðsynlega þjónustu? Bið eftir símatíma í Reykjanesbæ getur verið margir dagar hvað þá annað. Allt þetta veldur síðan auknu álagi á sjúkraflutninga á svæðinu þegar fólk veit að sé það flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku LSH kemst það beint undir læknishendur. Önnur afleiðing er svo aukið álag á bráðamóttökuna. Enginn þarf heldur að vera í vafa um að þetta veldur óþarfa álagi á læknavaktina, þar er jú hægt að fá viðtal samdægurs leggi fólk á sig að bíða í einn til tvo klukkutíma. Staðreyndin er sú að komur á bráðamóttökuna og læknavaktina eru milli 700–800 á sólarhring. Það sem hér er lýst má einnig kalla aðflæðisvanda þessarar mikilvægu bráðaþjónustu. Enginn vafi er á að fjármunum og tíma fólks væri betur varið með því að byggja upp nauðsynlega heilsugæsluþjónustu nær notendum, í þessu tilviki á Suðurnesjum. Það er með ólíkindum að tillögur Birgis Þórarinssonar, alþingismanns Miðflokksins, um auknar fjárveitingar til opinberra stofnana á Suðurnesjum, þar með talið til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, hafi allar verið felldar á liðnu kjörtímabili. Aftur og aftur eru Suðurnesin sniðgengin í fjárveitingum.

Fyrirliggjandi fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar gerir ráð fyrir niðurskurði næstu árin og eykur því ekki líkurnar auknum fjárframlögum til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Nýja ríkistjórn þarf til þess að svo verði. Settu X við M á kjördag.

Erna Bjarnadóttir
Skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.
#dingdingdingernuaþing