Birta og berklar
Vatnsleysuskóli, Litla-Hvammsskóli og bjartar skólabyggingar
Á myndinni er Vatnsleysuskóli, byggður 1911, fimmta skólabygging í Vatnsleysustrandarhreppi. Fyrst var byggt 56 fermetra skólahús í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi 1872, það stækkað í 86 fermetra 1886, síðan engurbyggt frá grunni í sömu stærð og mynd 1907 og notað til 1944. Norðurkotsskóli í Kálfatjarnarhverfi var byggður 1903 og starfræktur til 1910, en þá lagður niður og Vatnsleysuskóli byggður árið eftir, 1911.
Vatnsleysuskóli var steinsteypt hús með mörgum, stórum gluggum, á þess tíma mælikvarða. Hér er birt mynd af líkani, sem Guðmundur Jónsson gerði og Jón Mar, sonur hans, varðveitir og tók mynd af. Glæsilegt lítið hús! Það líkist skólahúsum sem byggð voru víðar um þetta leyti, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni, fyrsta arkitekt Íslands. Með fræðslulögunum 1907 fór ríkið loks að taka þátt í kostnaði við byggingu skólahúsa.
Þegar ég var að glugga í sögu Skógasafns tek ég eftir að Litla-Hvammsskóli úr Mýrdal (byggður 1901), sem er til endurbyggður við Skógasafn, er sláandi líkur, með mörgum og stórum gluggum. Gæti það verið sama teikning? Skýringin gæti verið önnur, en í ritgerð Vigdísar Finnbogadóttur um Þórð Tómasson segir (bls.28): „Þetta skólahús er mjög góður fulltrúi skólahúsa á þessum tíma og þótti hátt til lofts og vítt til veggja á þeim tíma sem það var byggt. Gluggar voru í upphafi ekki eins stórir og þeir eru í dag en í kringum 1910 voru þeir stækkaðir talsvert og þá helst til að reyna að sporna við berklaveiki sem þá geisaði um landið. Birta og sólarljós áttu að hafa mikið að segja til að fólk héldi heilsu.“ https://skemman.is/bitstream/1946/13575/1/Ritgerdin-Ba-pdf.pdf Þessi mynd af Litla-Hvammsskóla á Skógum birtist í grein Vigdísar.
Berklar gátu hafa valdið því hve mikilli birtu var hleypt inn í litlu Vatnsleysuskólabygginguna. Sá faraldur geisaði grimmt þegar það hús var hannað og byggt. Þá var dánarhlutfall berklasjúklinga á Íslandi eitt það hæsta í Evrópu og berklar ein algengasta dánarorsökin, ollu um fimmtungi allra dauðsfalla á landsvísu. Lyf við Berklum komu ekki til sögunnar fyrr en undir miðja 20. öld. Fram að því var reynt að hindra smit og hjúkra þeim sjúku, m.a. með byggingu berklahæla á Vífilstöðum, Kristnesi og víðar. Heilbrigt líferni, hreinlæti og hreysti var mikilvægt til að verjast berklabakteríunni.
Kennarinn Ólafur Guðjónsson var gagnfræðingur frá Flensborg 1897 og hafði áður kennt í heimasveit sinni, Grímsnesi, er hann hóf kennslu í Suðurkotsskóla í Vatnsleysustrandarhreppi um 1907. Ólafur fékk berkla 1909, varð að hætta kennslu um veturinn og lést þá um vorið. Sótthreinsa þurfti hús og búnað og voru bækur Lestarfélagsins Baldurs, sem var til húsa í skólanum, pakkað niður í kassa, af ótta við smit, og ekki pakkað upp aftur fyrr en tæpri öld síðar! Var þá ekki einmitt ráð að hafa stóra glugga á næstu skólabyggingu?
Gamla skólahúsið á Vatnsleysuströnd í baksýn.
Meira um Vatnsleysuskóla
Í 23. þætti 150 ára skólasögu Vatnsleysustrandarhrepps segir: „Í 19. þætti segir frá því að 1910 var kennslu í litla Norðurkotsskólanum í Kálfartjarnarhverfi hætt, húsið selt og hafin kennsla á Vatnsleysu, en þá voru þar um slóðir barnmörg, fátæk heimili. Árið eftir var byggt lítið steinsteypt skólahús og kennt þar, jafnframt Suðurkotsskóla, í 3 ár, til 1914. Kennari var Kristmann Runólfsson, Hlöðversnesi og síðan Ingvar Gunnarsson frá Skjaldarkoti (kennarapróf 1911). Þá lagðist kennsla af í Vatnsleysuskóla í 11 ár, því þá voru þar færri börn og var 1920 rætt um að selja húsið, en ekki varð að því. Ingvar flutti til Hafnarfjarðar, var frumkvöðull i skógrækt og sá m.a. um Hellisgerði 1925-'56.“ Í þessum þætti átti að birtast mynd af líkaninu af skólanum, en hún hefur fallið niður, en birtist í prentvænu útgáfunni á vef Stóru-Vogaskóla 150-ara-skolasaga-voga--i-heild.-prentvaen-utg.4a.pdf Myndin er birt bls. 352 í bók Guðmundar Björgvins, Mannlíf og mannvirki, frá 1987.
Eftir áratugs hlé var kennt nær samfellt í Vatnsleysuskóla árin 1925 til 1943, en þá hófst skólaakstur í hreppnum og eftir það var öllum börnunum kennt á einum stað, í Brunnastaðahverfi og síðar Vogum. Enda þótt um sérstakt hús væri að ræða talaði Viktoría kennari oft um Vatnsleysufarskóla, í einkunnabók skólans. Skólahús þetta var síðan selt bændum á Vatnsleysu og notað sem fjárhús, uns það var rifið. Á bak við hestinn sést fjárhúsið, en þá mátti það muna fífil sinn fegri. Hafði verið steypt upp í neðri hluta glugganna og þeir minnkaðir mikið, enda lögðust berklar síður á sauðfé og því minni þörf á birtu – og ekki lengur þörf á að hafa lesbjart þar inni.
Helstu heimildir
Þættir 19 og 23 í 150 ára sögu Stóru-Vogaskóla 150-ara-skolasaga-voga—i-heild.-prentvaen-utg.4a.pdf
Ritgerð Vigdísar Finnbogadóttur (tengdadóttur Sveins Runólfssonar) um Þórð Tómasson og Skógasafn: https://skemman.is/bitstream/1946/13575/1/Ritgerdin-Ba-pdf.pdf
Litla-Hvammsskóli: https://husaflutningar.is/litla-hvammsskoli-skogasafni-rangarthingi-eystra/
Bók Guðmundar Björgvins Jónssonar: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, útgefin af höfundi 1987, aðgengileg á netinu, hér tengt beint á bls. 387: https://baekur.is/bok/96a9ab8d-1abe-471b-a2b9-57d351f1d44c/0/356
Vikipedia um berkla: https://is.wikipedia.org/wiki/Berklar
Upplýsingar frá Hjörleifi Stefánssyni, arkitekti, og Bjarka þ. Wium, nema í arkitektúr.
Mynd af líkani Guðmundar Jónssonar af Vatnsleysuskóla, frá syni hans, Jóni Mar.





