Aðsent

Arnar Páll býður sig fram til oddvita
Föstudagur 9. janúar 2026 kl. 11:11

Arnar Páll býður sig fram til oddvita

Kæru íbúar Reykjanesbæjar!

Eftir mikla hvatningu hef ég ákveðið að gefa kost á mér í oddvitasæti á lista Viðreisnar í Reykjanesbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Ég býð mig fram af þeirri sannfæringu að Reykjanesbær eigi meira inni, að Viðreisn eigi erindi við íbúa og geti verið öflugt afl til umbóta. Reykjanesbær er ekki aðeins stórt og fjölmennt sveitarfélag, heldur samfélag með sterkar rætur. Með skýrri framtíðarsýn, ábyrgri fjármálastjórn og samstöðu þvert á flokka getum við stóraukið þjónustu við íbúa, einfaldað kerfin og tryggt traustan og sjálfbæran rekstur til lengri tíma. Hér eru sterkir innviðir, alþjóðaflugvöllurinn er í næsta nágrenni, sem við getum og eigum að nýta mun betur til að styðja við frekari fjárfestingu, þróun og framtíðarstörf. Samhliða þessu er nauðsynlegt að efla nýsköpun og byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf í Reykjanesbæ. Slík uppbygging gerist ekki af sjálfu sér, heldur krefst markvissrar samvinnu, opins samtals og trausts samstarfs, þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi.

Þó að ég bjóði mig fram núna þá hófst stjórnmálaþátttaka mín árið 2016 þegar ég tók þátt í stofnun Viðreisnar. Ég hef alla tíð trúað á gildi flokksins, að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum, standa vörð um frjálslyndi og sýna ábyrgð í verki. Ég hef alla tíð verið virkur í starfi flokksins og gegnt ýmsum lykilhlutverkum, meðal annars sem formaður kjördæmisráðs, formaður Viðreisnar í Reykjanesbæ og nú formaður Viðreisnar á Suðurnesjum. Þá sat ég í menningar- og atvinnuráði Reykjanesbæjar kjörtímabilið 2018–2022, þar sem ég tók þátt í að móta stefnu og taka ákvarðanir sem höfðu bein áhrif á samfélagið okkar.

Mín helstu áherslumál fyrir komandi kosningar eru:

  • Ábyrg og stöðug fjármálastjórn, þar sem gagnsæi er regla en ekki undantekning og að framkvæmdaáætlanir byggi á raunhæfu mati.
  • Öryggi í umhverfinu, með því að stuðla að öruggum og góðum samgöngum sem þróast í takt við fjölgun íbúa.
  • Styðja enn betur við öflugt markaðsstarf og vinna af krafti að því að fá öflug fyrirtæki til bæjarins og byggja þannig undir frekari nýsköpun, fjárfestingu og tækifæri til framtíðar.
  • Framúrskarandi íþrótta-, skóla- og frístundastarf, þar sem jafnt aðgengi barna og ungmenna er tryggt svo öll börn fái að njóta sín óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.
  • Hugsa í lausnum þvert á flokka, með því að fagna öllum góðum hugmyndum sama hvaðan þær koma.

Ég er menntaður viðskiptafræðingur og hef lokið meistaraprófi í mannauðsstjórnun. Ég er fæddur, uppalinn og búsettur í Reykjanesbæ og hjarta mitt slær með samfélaginu okkar. Ég er fullur eldmóðs og hlakka til þeirra verkefna sem fram undan eru. Ég er tilbúinn að leggja á mig ómælda vinnu til að ná sameiginlegum markmiðum Viðreisnar í Reykjanesbæ. Viðreisn stendur fyrir skynsemi, ábyrgð og fagmennsku og vil ég leggja mitt af mörkum til að þau gildi verði innleidd af meiri festu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Ég sæki því stoltur um að leiða þann öfluga hóp sem í framboði verður fyrir Viðreisn í komandi sveitarstjórnarkosningum, en hann mun verða skipaður framtaksömu, ábyrgu og kraftmiklu fólki sem vill bæta samfélagið sitt og láta gott af sér leiða.

Ég hlakka til að taka samtalið við ykkur á komandi misserum um bestu lausnirnar fyrir samfélagið okkar.

Virðingarfyllst,

Arnar Páll Guðmundsson.