Af húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar
Það er gleðilegt að sjá mikinn áhuga á Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar og gott að taka fram nokkrar staðreyndir um uppbyggingu sveitarfélagsins.
Til Reykjanesbæjar flytja um 1.000 nýir íbúar á ári en fjölgunin hefur verið tæp 60% undanfarin 10 ár. Áætlun til næstu 10 ára gerir ráð fyrir 23% fjölgun íbúa eða um 5.400 manns. Það eru fá ef nokkur sveitarfélög sem hafa upplifað aðra eins hraða fjölgun. Fyrir þessu eru nokkrar ástæður:
- Reykjanesbær er frábær bær, fjölskylduvænn með góða skóla og íþrótta- og tómstundastarf til fyrirmyndar en næst stærsti hópur íbúa er á aldrinum 6-19 ára.
- Húsnæðisverðið er lægra en á stór-höfuðborgarsvæðinu.
- Á Suðurnesjum er alþjóðaflugvöllur í miklum vexti auk fjölda annarra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem fer vaxandi ár hvert í takt við vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar. Samhliða því þurfum við meira fólk til starfa sem flytur í auknum mæli til okkar og sveitarfélaganna í kring.
Á næstu 10 árum er áætlað þörf fyrir 2.200 nýjar íbúðir. Uppbygging undanfarin ár hefur verið öflug með 150 nýjar íbúðir að meðaltali á ári, undanfarin fimm ár. Til framtíðar eru skipulagðar lóðir í sveitarfélaginu fyrir tæplega 3.800 íbúðir sem hægt er að byggja upp á næstu 10 árum.
Einbýli og fjölbýli
Þessa dagana er verið að vinna að deiliskipulagi fyrir fjögur svæði í Ásbrúarhverfi Reykjanesbæjar þar sem gert er ráð fyrir rúmlega 180 raðhúsum og einbýlishúsum. Á einu af svæðunum er verið að vinna að því að fjölga raðhúsum á reitnum.
Auk þess er unnið að deiliskipulagi í Ytri-Njarðvík sem gerir ráð fyrir tæplega 30 raðhúsum og verið er að skoða viðbætur á einbýlum og raðhúsum í Dalshverfi 3. Ekki má heldur gleyma að 37 einbýlislóðir eru lausar til úthlutunar í Ásahverfi sveitarfélagsins.
Vissulega verður einnig byggt fjölbýli um allt sveitarfélagið en markaðurinn virðist mikið vera að kalla eftir 1-2 herbergja íbúðum og við því er verið að bregðast við. Aldur íbúa Reykjanesbæjar skiptist nefnilega þannig að langstærsti hluti íbúa er á aldrinum 30-39 ára, svo 6-19 ára og þriðji stærsti hópurinn er á aldrinum 20-29 ára.
Gott er líka að sjá samanburð við önnur sveitarfélög:
Sveitarfélög |
Einbýli/sérbýli |
Fjölbýli |
Reykjanesbær |
33% |
67% |
Akureyri |
39% |
61% |
Hafnarfjörður |
27% |
73% |
Kópavogur |
24% |
76% |
Í Reykjanesbæ, fjórða stærsta sveitarfélagi landsins, er meira af einbýlum heldur en í Hafnarfirði og Kópavogi. Reykjanesbær er með færri einbýli en Akureyri og fleiri sérbýli þó að ekki muni miklu.
Það er ljóst að áhuginn á að lifa og starfa í okkar frábæra bæ er mikill og heldur áfram, ár eftir ár. Reykjanesbær er að leggja áherslu á fjölbreytta byggð í uppbyggingu sveitarfélagsins líkt og kemur fram í húsnæðisáætluninni. Áhuginn er mikill á 1-2 herbergja íbúðum og markaðurinn er að svara því kalli.
Bæjarsál Reykjanesbæjar er í góðum höndum og íbúar hafa val um fjölbreytt íbúðaform þó að vissulega hefur ákallið meira verið til fjölbýlis sem er eðlilegt í mikilli uppbyggingu sem einkennt hefur Reykjanesbæ undanfarin ár.
Fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar,
Guðný Birna, formaður bæjarráðs.