Aðsent

Af fólki og flokkum
Fimmtudagur 3. maí 2018 kl. 06:00

Af fólki og flokkum

„Þú veist að fólk kemur til með að tengja Framsókn við þína persónulegu ímynd,“ sagði góð vinkona mín þegar ég sagði henni að ég hyggðist taka að mér verkefni sem kynningastjóri Framsóknarflokksins fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Já, ég gerði mér fyllilega grein fyrir því. Ég m.a.s. gerði oddvita flokksins ljóst að ég myndi senda frá mér opinbera tilkynningu á vefsíðunni minni og Facebook þar sem fram kæmi að þetta væri ekki stuðningsyfirlýsing við flokkinn sem slíkan. Ég vil að það sé á hreinu að ég hef aldrei verið flokkspólitísk og sé ekki fram á að það breytist nokkru sinni. Og svo er þetta jú líka vinnan mín.

Ég er þó þannig gerð að ég tek aldrei að mér markaðssetningu á einhverju sem ég hef ekki trú á. Og það er nefnilega ekki flokkurinn sem slíkur sem ég hef trú á. Ég hef trú á því fólki sem skipar efstu sæti listans. Í sveitarstjórnarmálum sérstaklega skiptir fólk meira máli en flokkar. Maður er einfaldlega að kjósa fólk. Persónulega finnst mér löngu orðið tímabært að koma á persónukjöri, en það er önnur saga.

Það mikilvæga við þennan hóp fólks sem þarna er í forystu er að þau eru velflest ný í stjórnmálum og því ekki sýkt af þessari pólitísku veiki sem virðist einkenna þá sem hafa verið í henni. Og ég hef ekki trú á að þau muni sýkjast, því þau tilheyra nýrri kynslóð. Kynslóð breytinga. Kynslóð heiðarleika og gegnsæis. Kynslóð sem trúir því að flóðið lyfti öllum bátum og vinnur með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Kynslóð sem að hlustar, tekur rökum, skoðar allar hliðar á málunum, kann að vinna með ólíku fólki með ólíkar skoðanir. Kynslóð sem kann gagnrýna hugsun og fylgir ekki foringjum og stefnum í blindni.

Gagnrýnin hugsun er nauðsynleg í öllu í lífinu. Það á líka við bæði þegar maður starfar í pólitík en ekki síst þegar maður kýs. Sem kjósandi þarf maður að skoða málin gaumgæfilega, vega og meta en ekki falla í þá gryfju að kjósa bara það sem maður hefur alltaf kosið, eða það sem pabbi kýs eða jafnvel afi. Maður verður að hugsa sjálfur.

Það er kominn tími á nýtt blóð, ný vinnubrögð og nýja tíma. Endurnýjun er bæði holl og góð. Það er hollt að fá inn fólk sem kann ekki reglurnar, hefur aldrei leikið leikinn, því öðruvísi breytast reglurnar og leikurinn aldrei. Reynsla verður ekki mæld í árum heldur lærdómi. Þú getur stundað sama starfið í 40 ár en samt í raun bara haft eins árs reynslu 40 sinnum. Og hvað segir það um manns innri mann?

Þetta snýst ekki um flokka heldur fólk. Það fólk sem þú treystir til að vinna fyrir okkur öll. Þess vegna var ég tilbúin til að taka þá áhættu að tengja mína ímynd við pólitík í þessu tiltekna verkefni. Því ég veit að þessi hópur frambjóðenda getur gert það sem þarf fyrir bæinn okkar.

Höfundur er markaðsráðgjafi og kynningarstjóri Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ fyrir bæjarstjórnarkosningar 2018