Viðskipti

Skúli Mog opnar nýtt hótel á Ásbrú - ánægður með Play en hefði viljað sjá lægri verð
Skúli Mogensen opnar nýtt hótel á Ásbrú í ágúst. VF-myndir/pket og hbb.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 9. júlí 2021 kl. 20:37

Skúli Mog opnar nýtt hótel á Ásbrú - ánægður með Play en hefði viljað sjá lægri verð

Skúli Mogensen, stofnandi flugfélagsins WOW er bjartsýnn á komandi tíma fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og Suðurnesjum. Hann er að opna nýtt 67 herbergja hótel á Ásbrú á næstunni sem verður alfarið sjálfstýrt. Honum líst vel á Play flugfélagið en hefði viljað sá það færa lægra í farmiðaverðum.

Nýja hótelið heitir  ABC Hotel og er við Keilisbraut 747 á Ásbrú. „Þetta er bygging sem ég gerði alfarið upp á sínum tíma og var notuð fyrir erlendu flugmenn WOW air en hefur núna verið í skammtímaleigu. Þetta veður 67 herbergja hótel sem verður alfarið sjálfstýrt þar sem gestir innrita sig sjálir og fá aðgang að herbergi sínu með lásakóða. Herbergin eru flest öll rúmgóð, nýuppgerð og á hagstæðu verði hverju sinni.  Stefnt er að því að opna núna í ágúst,“ segir Skúli sem er með taugar til Suðurnesja enda með sterka Keflavíkurtengingu en móðir hans, Anna Skúladóttir er fædd og uppalin í Keflavík. 

Suðurnesin rísa hratt

„Það er alveg ljóst að núna þegar landið opnast á ný og flugið kemst í samt horf þá munu Suðurnesin rísa hratt á ný. Það er líka ánægjulegt að sjá nýsköpunina sem er að eiga sér stað og ég hef alltaf verið sannfærður um skilin á milli Suðurnesja og Höfuðborgarsvæðisins muni halda áfram að minnka á komandi árum enda stutt á milli,“ segir Skúli en hann breytti Base hotel sem hann rak á sínum tíma í litlar íbúðir sem hafa verið seldar á undanförnum mánúðum og ári. Alls um 80 íbúðir en stefnt er að því að setja síðustu 40 íbúðirnar í sölu í haust.

Gaman að fylgjast með Play

Aðspurður um nýstofnað flugfélag, Play, segir hann að stofnendur þess hafi staðið sig frábærlega og þar sé mikið af góðu fólki. Hann setur þó spurningamerki við farmiðaverð félagsins

„Ég er mjög bjartsýnn fyrir hönd Íslands og ferðaþjónustunar í heild sinni þar sem það er nokkuð ljóst að mikið af þeim erlendu flugfélögum sem hafa „uppgötvað“ Ísland á undanförnum árum munu snúa aftur og ef eitthvað er býst ég við því að framboðið til og frá Íslandi muni ná nýjum hæðum strax næsta sumar með tilheyrandi samkeppni og mjög hagstæðum verðum fyrir neytendur. Það hefur verið gaman að fylgjast með Play fara á flug og það að koma af stað nýju flugfélagi er gríðarlegt afrek svo ekki sé talað um að sækja 8 milljarða í fjármögnun áður en fyrsta flug er farið.  Þarna er mikið af góðu fólki sem á heiður skilið fyrir að koma félaginu á þennan stað eftir langa og stranga fæðingu. Byggt á fyrri reynslu hefði ég reyndar viljað sjá þau fara mun grimmar í lággjalda stefnuna til að standast aukna samkeppni úr öllum áttum en ég óska þeim alls hins besta og bíð spenntur eftir að sjá framhaldið,“ segir Skúli Mogensen.

Séð inn í nýja hótelið á Ásbrú, ABC hótel.

Skúli við opnun Base hótelsins 2016 en með honum eru Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi ferðamálaráðherra og flugfreyjur frá WOW.