Viðskipti

Næg verkefni fyrir Bláa lónið
Magnús Guðmundsson.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. maí 2024 kl. 06:15

Næg verkefni fyrir Bláa lónið

Magnús Guðmundsson í Grindinni í Grindavík efins hvort það hafi verið bjarnargreiði hjá ríkin að bjóða upp á þessi uppkaup.

„Ég spyr mig stundum hvort þetta hafi verið bjarnargreiði hjá ríkinu að bjóða upp á þessi uppkaup,“ segir Magnús Guðmundsson, eigandi Grindarinnar í Grindavík. Gefið hefur á bátinn hjá fyrirtækinu eins og hjá öðrum grindvískum fyrirtækjum en verkefnastaðan næstu árin er góð vegna mikilla framkvæmda við Bláa lónið. Magnús er uggandi yfir framtíð Grindavíkur en er þó ekki tilbúinn til að gefast upp.

Magnús fór yfir hvað Grindin er að gera hjá Bláa lóninu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Við erum að byggja nýtt útisvæði við Bláa lónið, gufubað, sauna, kaldan pott og fossa svo eitthvað sé nefnt í þessum fyrsta áfanga og svo mun meira fylgja í kjölfarið. Við ætluðum að hefja framkvæmdir í nóvember en ákveðinn atburður kom í veg fyrir það svo við þurftum að ýta því á undan okkur en gátum hafist handa í byrjun janúar. Ég veit ekki alveg hvenær þessum fyrsta áfanga lýkur, vonandi í haust í síðasta lagi en svo er margt framundan næstu árin svo verkefnastaða okkar í framkvæmdum fyrir Bláa lónið er góð á næstunni. Þessi frábæri staður mun verða ennþá flottari fyrir ferðafólkið og er gaman að fá að taka þátt í uppbyggingunni.“

Blaðamaður tók hús á Magnúsi skömmu eftir að Grindvíkingum var hleypt til síns heima að vitja að eign sinni og hefja flutninga, hljóðið var ekki gott í honum þá.

„Nei, ég var ekki ánægður þá og hef ekki verið síðan má segja. Þessar hömlur sem voru settar á atvinnustarfsemi í bænum voru mjög íþyngjandi og minnstu munaði að þetta setti stórt strik í reikninginn hjá okkur en sem betur fer gátum við hafið framleiðslu á innréttingum í Hafnarfirði og gátum þannig uppfyllt okkar samninga. Við hófum síðan aftur starfsemi hér í Grindavík fyrir tveimur vikum en það hefur fækkað í starfsliðinu, sumir hafið störf nær nýju heimili og aðrir sem einfaldlega treysta sér ekki til að starfa inni í Grindavík. Sjálfur er ég búinn að kaupa mér íbúð í Njarðvík svo það er stutt fyrir mig að skjótast hingað í Bláa lónið en við hjónin erum opin fyrir að snúa til baka um leið og færi gefst, við ætlum bara að sjá hvernig málin munu þróast á næstunni,“ segir Magnús.

Snúin staða í Grindavík

„Þessi uppkaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga flækja málin ansi mikið fyrir okkur sem erum í atvinnustarfsemi í bænum. Það er ekki einfalt mál að búa í Reykjavík t.d. og mæta til vinnu í Grindavík, fólk þarf að koma börnum í skóla og leikskóla og allt svona tekur miklu meiri tíma en ef fólk byggi í Grindavík. Margir íbúar Grindavíkur unnu í Reykjavík en þá var annað foreldrið að vinna í Grindavík og fólk hafði sitt tengsla-net sem er kannski ekki til staðar í Reykjavík eða þar sem viðkomandi eru búinn að koma sér fyrir. Ég spyr mig stundum hvort þetta hafi verið bjarnargreiði hjá ríkinu að bjóða upp á þessi uppkaup, ég er hræddur um að fólk snúi ekki til baka. Maður spyr sig, hvers eigum við atvinnurekendur að gjalda, starfsfólkið flutt í burtu en við sitjum uppi með atvinnuhúsnæði sem við getum þá ekki losnað við. Hvað ætlar ríkið að gera með alla þessa minni atvinnustarfsemi? Á ríkið eða bankarnir bara að hirða þetta? Hver er stefnan? Það verður að koma einhver aðstoð frá ríkisvaldinu ef við eigum að reyna halda þessari starfsemi gangandi. Stundum spyr maður sig hreinlega hvort best hefði verið að sleppa því að reisa þessa varnargarða og leyfa bara hrauninu að flæða yfir, það hefði verið best fyrir þessa smærri atvinnurekendur sem verða einfaldlega að fá einhverja aðstoð. Á móti má segja að hægt er að spyrna við fótum og hefja uppbyggingu, það væri auðvitað það besta fyrir Grindavík. Við eigum að geta lifað með þessum náttúruöflum. Varnargarðarnir veita okkur skjól og með því að hefja framkvæmdir inni í bænum, laga sprungurnar og gera bæinn öruggan eigum við að geta snúið til baka því þar með ætti skóla- og leikskólahald að geta hafist á ný. Við verðum bara að vona það besta og vera hugrökk, það er það eina sem gildir,“ sagði Magnús að lokum.