Viðskipti

Mikilvægt að finna leiðir út úr vítahring verðbólgu og vaxta
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 3. nóvember 2023 kl. 06:03

Mikilvægt að finna leiðir út úr vítahring verðbólgu og vaxta

– segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, eftir vinnufund í Reykjanesbæ. Stærsta verkefni komandi kjarasamninga. Hvert vaxtaprósent lækkar húsnæðislánið um tugi þúsunda. Er með sterkar taugar til Suðurnesja og alltaf Njarðvíkingur í hjartanu.

Það er mjög mikilvægt að finna leiðir út úr vítahring verðbólgu og vaxta. Það er stærsta áskorunin í íslensku samfélagi í dag,“ sagði Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri samtaka atvinnulífsins eftir vinnufund í Reykjanesbæ í síðustu viku en samtökin standa fyrir hringferð um landið á haustdögum. Sigríður sem er gallharður en brottfluttur Njarðvíkingur tók við starfinu fyrir stuttu síðan og segir það fjölbreytt og skemmtilegt.

„Við erum með opna vinnufundi um allt land þar sem við bjóðum alla velkomna, hvort sem þeir eru atvinnurekendur eða starfsfólk, almenningur eða stjórnsýsla eða eru að vinna fyrir verkalýðsfélögin, að koma og hitta okkur til að ræða lausnir af því að það er það sem skiptir öllu máli núna. Það er í rauninni bara ólíðandi að verðbólgan sé 8% og stýrivextir séu 9,25%. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum að fara í hringferðina.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Sigríður Margrét í sínum gamla heimabæ á vinnufundi Samtaka atvinnulífsins í Reykjanesbæ.

Ná verðbólgu og vöxtum niður

Sigríður segir að starfsmenn samtakanna hafa undanfarið lagt mikla vinnu í að skoða hvað það sé sem skipti máli. „Við erum búin að eyða mjög miklum tíma núna og að liggja yfir því hvað það er sem skiptir máli, hvað það er sem liggur að baki verðbólgunni, hvernig við getum verið samtaka til að ná henni niður vegna þess að þetta er það sem skiptir mestu máli. Það er mjög ánægjulegt þegar við eftir þessa fyrstu tvo fundi sem við erum búin að taka og eins líka þegar við erum að skoða niðurstöður úr könnunum sem við erum að gera á meðal aðildarfyrirtækja og meðal almennings, að það er mjög mikill samhljómur á milli fólks um að þetta sé stærsta verkefni komandi kjarasamninga eða það mikilvægasta. Að gera kjarasamninga sem stuðla að því að verðbólga lækki og þar með vextir, vegna þess að við sjáum það til dæmis að ef okkur tekst að semja innan þess svigrúms sem atvinnulífið hefur efni á og ef okkur tekst að ná tökum á verðbólgunni þá munar það svo gríðarlega miklu fyrir heimilin í landinu. Sem dæmi má nefna að ef vextir lækka um eitt prósentustig lækkar það afborgun af 40 milljóna króna húsnæðisláni um 33.000 krónur. Þetta er jafngildi 57.000 króna launahækkunar. Það skiptir svo miklu máli að við tökum samtalið um verðbólguna og hvað liggur að baki til þess að við séum samtaka í því að geta þá gert kjarasamninga sem eru þá að fara að skila í rauninni meira í vasa fólks á útgjaldahliðinni. Það að vera með svona mikla verðbólgu dregur úr kaupmætti. Það að vera með svona háa stýrivexti eykur kostnað bæði fyrirtækja og heimila og þetta dregur líka úr fjárfestingum í framtíðartækifærum.“

Hversu bjartsýn ertu á að hægt verði að ná þessum markmiðum, lækkun verðbólgu og vaxta?

„Ég ætla að leyfa mér vera bjartsýn vegna þess að þegar við sjáum að yfir 90% atvinnurekenda telja að þetta sé það mikilvægasta sem kemur að næstu kjarasamningum og yfir 70% almennings, þá ætla ég að leyfa mér að vera bjartsýn um það að okkur takist í sameiningu að ná tökum á þessari verðbólgu. Það er eina leiðin til að fara inn í svona verkefni.“

Eruð þið að gefa einhvern tón um að það sé ekki mikið svigrúm til launahækkana?

„Framtíðarsýn Samtaka atvinnulífsins er samfélag hagsældar og tækifæra og það þýðir að við þurfum og eigum að vera að styðja við ákvarðanir sem hagnast samfélaginu og við myndum aldrei styðja við ákvarðanir sem hagnast fyrirtækjum á kostnað samfélagsins. Þegar við förum inn í svona verkefni og áttum okkur á því að það sem skiptir máli er að fólk viti að við erum í rauninni að semja um verðmætaaukninguna sem á sér stað í landinu og þá þarf líka fólk að vita hver verðmætaaukningin er. Þá þarf fólk að skilja þessar tölur sem við erum alltaf að tala um í stóra samhenginu. Eins og staðan er núna er það þannig á Íslandi, hvort sem við horfum á síðustu þrjú ár, síðustu fimmtán ár eða síðustu tuttugu ár, þá erum við að semja um launahækkanir sem eru kannski tvöfalt til þrefalt hærri en á Norðurlöndunum. Þá sitjum við uppi með umhverfi eins og það sem er hér, þar sem við erum með vexti sem eru kannski þrefalt, fjórfalt hærri en í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það er samhengi í þessu öllu og þess vegna skiptir svo miklu máli að einmitt eiga samtalið og útskýra hlutina því ég er alveg viss um að við eigum svo miklu, miklu meira sameiginlegt.“

Hvað segir Njarðvíkingurinn um þá miklu breytingu sem hefur orðið í atvinnulífi á Suðurnesjum á undanförnum áratug?

„Heldur betur. Ég verð alltaf Njarðvíkingar í hjartanu og það er hreint og klárt þegar maður er alinn upp í Ljónagryfjunni er maður auðvitað með rosalega sterkar taugar til svæðisins og þar eru mínar bestu vinkonur. Æskuvinkonurnar eru héðan og við höldum sambandi og hittumst reglulega þó við búum ekki allar á sama stað. Það er auðvitað bara frábært að fylgjast með uppbyggingunni sem hefur átt sér stað hér á Suðurnesjunum og hvað hefur í rauninni mikið áunnist á undanförnum áratugum. Við erum komin með ferðaþjónustuna sem eina af undirstöðu útflutningsgreinum landsins og hér er auðvitað hjarta ferðaþjónustunnar, hvort sem við erum að tala um flugvöllinn eða afþreyingu og uppbyggingu. Við erum að sjá að sum af okkar fremstu ferðaþjónustufyrirtækjum eru staðsett á Suðurnesjum.“

Frá vinnufundi Samtaka atvinnulífsins í Reykjanesbæ.

Ná verðbólgu og vöxtum niður

Hvernig metur þú stöðuna fyrir Suðurnesin með tilliti til atvinnusvæðis, hver er mesta áskorunin fyrir Suðurnesjasvæðið á næstunni?

„Áskoranirnar á Íslandi speglast mjög vel hér á þessu svæði vegna þess að við vitum að á Íslandi er stór hluti af neyslunni okkar innfluttur. Sterkur og samkeppnishæfur útflutningsgeiri skiptir okkur alveg gríðarlega miklu máli og þegar kemur að útflutningsgeiranum þá sjáum við það þegar við horfum hundrað ár aftur í tímann að fjölbreytnin hefur aukist mjög mikið og við erum að sjá einmitt nýjar stoðir koma inn. Staðreyndin er hins vegar sú að ef okkur tekst ekki að auka fjölbreytileikann í útflutningsgreinunum verður Ísland og Suðurnesin með einhverja minnstu fjölbreytnina í útflutningi ef við setjum ekki fókusinn alveg á útflutningsgreinarnar. Það eru vaxtartækifæri og það eru að koma inn ný fyrirtæki og sprotar. Fiskeldisfyrirtækin hafa t.d. tífaldað útflutninginn sinn frá síðustu aldamótum og svo má nefna hugverkaiðnaðinn sem hefur komið alveg gríðarlega sterkur inn. Það eru sprotar hér sem ég held að skipti mjög miklu máli að hugsa vel um og hlúa að til að tryggja þennan fjölbreytileika í útflutningi.“

Treysta á erlent vinnuafl

Það er líka fleira sem skiptir mjög miklu máli. Ef við horfum bara á náttúrulega fjölgun íbúa á Íslandi á vinnualdri þá vitum við það að hún stendur undir um það bil 0,5 prósenta hagvexti og það þýðir að að ef við viljum hagvöxt umfram það, og það gildir um þetta svæði eins og önnur svæði, erum við að fara að treysta á aðflutta og það skiptir mjög miklu máli. Ef hagvöxtur eykst um þrettán prósent á næstu árum verða til fimmtán þúsund ný störf en íbúum á Íslandi á vinnualdri fjölgar bara um 2.500. Það setur miklar kröfur á okkur að taka vel á móti aðfluttum og vanda okkur í því.“