VSFK
VSFK

Viðskipti

Lagardère styrkir Ljósanótt - jákvæð ímynd Reykjanesbæjar skiptir máli
Þriðjudagur 3. september 2019 kl. 07:24

Lagardère styrkir Ljósanótt - jákvæð ímynd Reykjanesbæjar skiptir máli

Lagardère Travel Retail á Íslandi sem á og rekur veitingasölu í Flugstöð Leifsstöð Eiríkssonar verður einn helsti styrktaraðili menningar- og fjölskylduhátíðarinnar Ljósanætur í Reykjanesbæ í ár. Samningur þess efnis var undirritaður á dögunum á milli Sigurðar Skagfjörð Sigurðssonar, forstjóra Lagardère Travel Retail á Íslandi og Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra Reykjanesbæjar.

Lagardère Travel Retail á Íslandi hefur frá árinu 2016 verið dyggur stuðningsaðili Ljósanætur, enda er stærsta starfsstöð fyrirtækisins á flugvelli Leifs Eiríkssonar í Reykjanesbæ. Auk þess hafa flestir starfsmenn fyrirtækisins búsetu í svæðinu. Jákvæð ímynd Reykjanesbæjar skiptir fyrirtækið því miklu máli sem getur leitt til þess að fleiri vilji búa í Reykjanesbæ og sækja vinnu þar.

Sigurður Skagfjörð Sigurðsson, framkvæmdastjóri Lagardère Travel Retail á Íslandi:

„Fyrir okkur sem störfum í Reykjanesbæ er mjög mikilvægt að geta stutt myndarlega við menningarleg málefni eins og Ljósanótt í Reykjanesbæ. Við erum því afar stolt af því að vera einn helsti styrktaraðili hátíðarinnar, enda afskaplega metnaðarfull hátíð sem hefur skapað sér sess sem ein vinsælasta fjölskylduhátíð landsins. Það er sameiginlegt verkefni okkar og Reykjanesbæjar að styðja við jákvæð verkefni og jákvæða ímyndarsköpun á svæðinu og Ljósanætur er dæmi um slíkt verkefni.”