Byko 14-15 sept opnunartilboð
Byko 14-15 sept opnunartilboð

Viðskipti

KSK er fjárhagslega sterkt og lifir góðu lífi
Sunnudagur 14. september 2025 kl. 08:17

KSK er fjárhagslega sterkt og lifir góðu lífi

Viðtal við Sigurbjörn Gunnarsson, stjórnarformann KSK, í tilefni 80 ára afmælis félagsins

Kaupfélag Suðurnesja (KSK) fagnar í ár 80 ára afmæli. Félagið, sem á rætur sínar að rekja til pöntunarfélags KRON í Reykjavík, hefur í gegnum áratugina verið stór þátttakandi í atvinnu- og verslunarstarfsemi á Suðurnesjum og víðar. Í dag eru félagsmenn um sjö þúsund talsins. Í tilefni tímamótanna ræddu Víkurfréttir við Sigurbjörn Gunnarsson, stjórnarformann KSK, um sögu, áskoranir og framtíð félagsins.

Frá pöntunarfélagi að landsneti verslana

„Þetta eru stór tímamót,“ segir Sigurbjörn. „KSK er eitt elsta félagið á Suðurnesjum sem enn er í rekstri – og það eru ekki mörg sem ná þessum aldri.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Töluverðar breytingar hafa orðið í rekstrinum í 80 ára sögu félagsins. Í upphafi var þörf fyrir verslanir á svæðinu og úr pöntunarfélagi KRON varð til Kaupfélag Suðurnesja. Í fyrstu var um að ræða almenna dagvöruverslun en síðar komu til sérverslanir eins og vefnaðarvöru- og byggingarvörudeildir einnig útgerð, fiskverkun og sláturhús í Grindavík. Seinna einbeitti félagið sér að rekstri mat- og dagvöruverslana.

Markaðurinn breyttist og KSK þurfti að laga sig að samkeppni. Starfsemin var útvíkkuð út fyrir Suðurnes – til Hafnarfjarðar, Ísafjarðar, Norðurlands og víðar. Af því spratt dótturfélagið Samkaup sem tók yfir verslunarreksturinn og varð mikilvægasti þátturinn í rekstrinum.

Samkaup sameinast stærri samstæðu

Samkaup óx hratt og rekur um 60 verslanir um allt land. Sigurbjörn segir að það hafi að mörgu leyti verið erfiður og flókinn rekstur:

„Við byggðum reksturinn á mörgum litlum verslunum víða um land, ólíkt stærstu keppinautum sem höfðu stóru verslanirnar á höfuðborgarsvæðinu. Þegar þeir fóru í umfangsmeiri rekstur með miklu hærri veltu varð ljóst að við þyrftum að breyta til.“

Árið 2024 hófust viðræður um sameiningu Samkaupa og fyrirtækja í eigu Skeljar, fjárfestingarfélags m.a. Orkuna og Lyfjaval. Eftir langar viðræður varð niðurstaðan sl. vor að Samkaup, Orkan, Lyfjaval og fleiri félög sameinuðust og til urðu Drangar hf., félag sem er svipað uppbyggt og helstu keppinautar. „Samkaup styrkist með því að vera hluti af stærri heild sem rekur margvíslega starfsemi – eldsneytissölu, lyfjaverslanir, bílaþvott og fleira,“ segir Sigurbjörn.

Kaupfélagið á nú 15% í Dröngum og er næst stærsti hluthafinn, en heldur jafnframt 100% eignarhaldi í KSK eignum, fasteignafélagi með um 35.000 fermetra í eignum.

Áhrif á starfsmenn og verslanir

Kaupfélag Suðurnesja sjálft er aðeins með tvo starfsmenn í hlutastarfi auk þess sem starfandi er framkvæmdastjóri fyrir KSK eignir. Samkaup heldur áfram starfsemi sinni en eðlilega verða breytingar þar sem Drangar taka yfir félagið.

„Það verður alltaf einhver endurskipulagning – sumar verslanir loka og aðrar opna – en það hefði örugglega gerst hvort sem við hefðum farið í þessa sameiningu eða ekki,“ útskýrir Sigurbjörn.

Á Suðurnesjum eru Samkaup sterk. Þar má nefna Nettó í Krossmóa og á Iðavöllum, sem flyst væntanlega á Aðaltorg á nýju ári. „Þetta er sterkasta markaðssvæði Samkaupa og ég tel að menn vilji viðhalda þeirri stöðu,“ segir hann.

Áskoranir í rekstri – Grindavík og slakt sumar

Samkeppnin við stóru aðilana hefur reynst hörð. Þeir gátu boðið lægra verð og áttu auðveldara með að tryggja sér góðar staðsetningar. „Samkaup hefur verið meira háð sumartúrisma, en sumarið 2024 var mjög slakt samanborið við árið á undan. Veður voru erfið og ferðamönnum fækkaði,“ segir Sigurbjörn.

Auk þess hafi náttúruhamfarir í Grindavík haft þung áhrif. „Verslunin þar var ein af stærstu í félaginu og féll út á einum degi. Tap vegna þess nam um 200 milljónum á árinu 2024,“ segir hann.

Félagsmenn og samvinnuhugsjónin

Viðbrögð félagsmanna við breytingunum hafa verið misjöfn en á fundi fulltrúaráðs Kaupfélagsins í vor var sameiningin samþykkt einróma. „Menn sáu að núverandi rekstrarmódel gekk ekki lengur,“ segir Sigurbjörn.

Samvinnuhugsjónin lifir áfram. „Hver sem er getur gengið í félagið fyrir 1.000 krónur og tekið þátt í ákvörðunum. Samvinnufélög eru mjög sterk víða erlendis – einn milljarður manna í heiminum eru félagar í slíkum félögum – og ég tel að formið mætti nýta meira hér á landi, jafnvel í rekstri leikskóla eða annarra samfélagslegra verkefna,“ segir hann.

Fjárhagsstaða og framtíð

Kaupfélag Suðurnesja er í dag fjárhagslega sterkt. „Við eigum eignir í fasteignafélaginu fyrir a.m.k. sjö milljarða króna og hlut í Dröngum sem er að lágmarki þriggja milljarða virði. Félagið lifir góðu lífi,“ segir Sigurbjörn.

Framtíðin felst að hans mati í áframhaldandi fasteignarekstri og nýjum verkefnum sem styrkja samfélagið. „Við ætlum að nota stöðu okkar til að efla hag félagsmanna og styrkja búsetu og mannlíf á Suðurnesjum,“ segir hann að lokum.


Kaupfélag Suðurnesja 80 ára

Frá pöntunarfélagi verkamanna að samvinnufyrirtæki á landsvísu

Árið 2025 eru liðin áttatíu ár frá stofnun Kaupfélags Suðurnesja. Fáir hafa haft jafnmikil áhrif á atvinnu-, menningar- og verslunarsögu Suðurnesja og þetta félag. Saga þess er samofin sögu byggðarinnar og baráttunni fyrir bættum kjörum, auknum réttindum og traustari undirstöðum í verslun og atvinnulífi. KSK varð til í miðri kreppu og örum samfélagsbreytingum, en hefur allt frá stofnun sýnt að samtakamáttur fólks getur skapað ný tækifæri, hvort sem er í verslun, atvinnusköpun eða samfélagsuppbyggingu.

Kaupfélag Suðurnesja á rætur sínar í pöntunarfélagi sem Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur stofnaði árið 1935. Þegar kaupfélagið var formlega stofnað þann 13. ágúst 1945 var grunnurinn þegar sterkur og hugmyndin skýr: að sameina krafta heimamanna, tryggja lægra vöruverð, byggja upp atvinnulíf og skapa fjárhagslegan ávinning fyrir almenning. Frá þeim tíma hefur félagið gengið í gegnum ótal breytingar – góðæri og kreppur, uppbyggingu og hrun, samruna og útrás – en alltaf með meginmarkmiðið að þjóna félagsmönnum sínum og samfélaginu í kringum sig.

Verðkröfufélög og samvinnuhugsjón á Íslandi

Saga samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi er rakin til svokallaðra verðkröfufélaga sem tóku að myndast á fjórða áratug 19. aldar. Þau voru óformleg félög bænda og sjómanna sem sameinuðust um að semja sameiginlega við kaupmenn um betri kjör fyrir afurðir sínar og lægra verð á innfluttum vörum. Þótt flest verðkröfufélögin hafi verið skammvinn, lagði þessi hreyfing grunninn að öflugri samvinnustarfsemi síðar.

Á Suðurnesjum höfðu menn fljótt áttað sig á tækifærunum sem fólust í þessum félagsskap. Um miðja 19. öld höfðu verðkröfufélög þegar sett mark sitt á viðskiptahætti á svæðinu og stuðlað að hagstæðari kjörum fyrir almenning. Árið 1880 lagði alþingismaðurinn Eggert Gunnarsson til að stofnað yrði vörupöntunarfélag sem myndi flytja inn vörur beint frá Englandi. Fyrsta sendingin kom árið 1881 á skipunum Liv og Ann Warren og markaði tímamót – í fyrsta sinn höfðu heimamenn á Suðurnesjum farið fram hjá dönskum kaupmönnum og tryggt sér beinan aðgang að vörum sem þeir sjálfir þurftu mest á að halda.

Þessi þróun varð undanfari bændaverslana og síðar kaupfélaga á Íslandi. Hugmyndin um að sameina krafta fólksins sjálfs til að tryggja réttlæti í viðskiptum var komin til að vera.

Fyrsta pöntunarfélagið í Keflavík – forveri KSK

Árið 1908 hvatti Ólafur Ásbjarnarson, kaupmaður í Keflavík, til stofnunar bændaverslunar á Suðurnesjum. Sú hugmynd komst þó ekki í fast form fyrr en tæpum þremur áratugum síðar, þegar verkalýðsfélagið í Keflavík tók málið í sínar hendur.

Þann 30. september 1935 var haldinn fundur í húsi Ungmennafélagsins Skildis við Kirkjuveg í Keflavík. Þar flutti Guðmundur Pétursson hugmynd um að stofna pöntunarfélag eftir fyrirmynd Reykjavíkur. Hugmyndinni var vel tekið og Þorbergur P. Sigurjónsson lagði fram tillögu sem var samþykkt samhljóða. Nýstofnað félag hlaut nafnið Pöntunarfélag Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur (VSFK) og var fyrsti pöntunarstjórinn Bjarni Sveinsson.

Þetta félag var í raun fyrsta skrefið að því sem síðar varð Kaupfélag Suðurnesja. Fljótlega eftir stofnun var félagið aðili að nýstofnuðu Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis (KRON) og árið 1937 var opnuð sölubúð í Keflavík. Þessi búð, við Aðalgötu 10, var fyrsta félagsverslunin á Suðurnesjum.

Stofnun Kaupfélags Suðurnesja

Þann 13. ágúst 1945, skömmu eftir lok síðari heimsstyrjaldar, var stofnað Kaupfélag Suðurnesja. Keflavíkurdeild KRON ákvað að ganga út úr aðalfélaginu og stofna sjálfstætt kaupfélag. Fyrsti kaupfélagsstjóri var Björn Pétursson og í fyrstu stjórn sátu m.a. Guðni Magnússon og Ragnar Guðleifsson.

Á þessum tíma var vöruúrval takmarkað og viðskiptalíf í endurreisn eftir stríðið, en með kaupfélaginu tóku Suðurnesjamenn málin í eigin hendur. Félagsmenn voru um 230 þegar félagið hóf starfsemi en innan örfárra ára voru þeir orðnir mun fleiri. Fyrsta verslunarhúsið var við Hafnargötu og Tjarnargötu – þá eitt fullkomnasta verslunarhús landsins.

Uppbygging og fjölbreytt starfsemi

Á árunum eftir stríð var mikil uppbygging. Nýjar búðir voru opnaðar í Keflavík, Njarðvík og Grindavík. Árið 1952 var bakarí opnað og skömmu síðar verslun með byggingarefni og veiðarfæri. Árið 1955 hófst nýr kafli þegar kaupfélagið keypti Hraðfrystihús Keflavíkur, sem síðar varð mikilvæg atvinnugrein tengd félaginu.

KSK var ekki aðeins verslun, heldur einnig atvinnuuppbyggjandi afl. Félagið rak sláturhús í Grindavík, kjötvinnsluna Kjötsel, útgerð með togurum og tók virkan þátt í nýsköpun í sjávarútvegi. Jafnframt var félagið í fararbroddi við að kynna nýja þjónustu: fyrsta kjörbúðin á Suðurnesjum var opnuð árið 1956 og fljótlega fylgdu fleiri.

Á sama tíma styrkti KSK félagslíf og menningu. Haldið var jólaball fyrir börn, skipulögð námskeið fyrir félagskonur og boðið upp á húsmæðraorlof. Samfélagsleg ábyrgð var orðin fastur þáttur í starfseminni.

Stækkun og sameiningar

Á áttunda áratugnum efldist kaupfélagið enn frekar. Nýjar búðir risu á Víkurbraut í Keflavík og í Grindavík. Árið 1975 sameinaðist KSK Kaupfélagi Ingólfs í Sandgerði og varð félagið þar með ráðandi afl í verslun á Suðurnesjum. Á sama tíma hófst útgáfa blaðsins Hlynur og síðar Kaupfélagsblaðsins, sem urðu mikilvæg miðlunartæki félagsins.

Árið 1980 varð mikilvægur áfangi þegar ákveðið var að byggja stórmarkað í Njarðvík. Með Samkaupum, sem opnuðu árið 1982, hófst nýr kafli í sögu félagsins: stórmarkaðsformið, með kjötvinnsluna Kjötsel undir sama þaki, varð að flaggskipi kaupfélagsins.

Félagsmönnum fjölgaði hratt, úr nokkur hundruðum í þúsundir. KSK var orðið ekki aðeins verslun heldur lykilstofnun í samfélaginu, með áhrif á atvinnu, menningu og mannlíf.

Umbrot og endurskipulagning

Á níunda áratugnum skall á erfið kreppa. Árið 1988 varð eitt versta ár í sögu félagsins og tap var umtalsvert. Þá kom til sögunnar ný forysta sem hóf gagngera endurskipulagningu. Flutningar voru lagðir niður, bakarí og fiskvinnsla seld, og áherslan færð á matvöruverslun.

Árið 1993 keypti félagið stórverslun í Hafnarfirði – fyrsta skrefið út fyrir Suðurnes. Þar með hófst útrás KSK og Samkaupa, sem á næstu árum keyptu og sameinuðu verslanir víða um land. Árið 1998 var Samkaup hf. stofnað sem dótturfélag KSK og tók yfir allan verslunarrekstur. Félagið varð smám saman landsvísu aðili, með Nettó, Kjörbúð, Krambúð og fleiri rekstrareiningar undir sínum merkjum.

Á sama tíma hélt KSK áfram að fjárfesta í samfélaginu: styrktarsjóðir voru stofnaðir, menningarverkefni studd og heilbrigðisstofnunum veittur stuðningur.

Nýtt árþúsund – Samkaup verður landsfyrirtæki

Á fyrstu árum 21. aldar jókst umfang Samkaupa hratt. Félagið keypti verslanir á Austurlandi, Norðurlandi, Vestfjörðum og víðar. Með sameiningum og kaupum varð Samkaup eitt stærsta matvörufyrirtæki landsins.

Árið 2003 keypti KSK helmingshlut sinn í Kaupfélagi Eyfirðinga og tvöfaldaðist þar með velta Samkaupa. Árið 2005 voru félagsmenn KSK um 3.200 og félagið orðið helsti keppinautur Bónuss og Hagkaupa á landsvísu.

Á sama tíma efldi KSK eignarhald sitt í fasteignum og öðrum félögum, meðal annars Lyfju, og stofnaði fasteignafélagið Urtustein. Félagið sýndi að það gat ekki aðeins lifað af erfiðleika heldur líka nýtt breytingar til vaxtar.

Áföll og áskoranir eftir hrun

Fjármálahrunið 2008 skall einnig á KSK og Samkaupum. Félagið varð fyrir fjárhagstjóni en tókst að endurskipuleggja reksturinn og standa af sér storminn. Áhersla var lögð á hóflega skuldsetningu og traustari stoðir.

Árið 2012 hófst ný stefnumótun þar sem KSK skilgreindi þrjár meginstoðir starfseminnar: samvinnu, traust og samfélagslega ábyrgð. Félagið vildi vera ekki aðeins verslunar- og eignarhaldsfélag heldur hreyfiafl framfara í samfélaginu. Á þessum tíma fjölgaði félagsmönnum hratt og félagssvæðið var stækkað til að ná yfir allt höfuðborgarsvæðið.

Samfélagsleg verkefni voru áberandi: KSK gaf Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sneiðmyndatæki að verðmæti 30 milljóna króna, studdi við stofnun Keilis og lagði fram fé í styrktarsjóði fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Félagið varð einn helsti bakhjarl menningar og líknarstarfs á Suðurnesjum.

KSK í dag – 80 ára félag á nýrri öld

Árið 2025 er KSK 80 ára. Samstæða félagsins samanstendur af Samkaup hf., sem rekur 65 verslanir víðs vegar um landið undir merkjum Nettó, Kjörbúð, Krambúð og Iceland, og fasteignafélaginu KSK eignir ehf. sem heldur utan um um 30 fasteignir. Alls starfa um 1.300 manns í fyrirtækjunum sem tengjast félaginu.

KSK hefur þannig breyst úr litlu pöntunarfélagi verkalýðsfélagsins í Keflavík í eitt stærsta samvinnufélag landsins. Félagið er enn í eigu félagsmanna, sem nú telja þúsundir, og á því rætur í þeirri samvinnuhugsjón sem mótaði íslenskt samfélag á 20. öld.

Stefna félagsins til næstu ára felur í sér aukna áherslu á sjálfbærni, nýsköpun og samfélagslega ábyrgð. Markmiðið er að tryggja að það sé eftirsóknarvert að vera félagsmaður í KSK – að ávinningurinn sé ekki aðeins mældur í krónum og aurum heldur einnig í betra samfélagi fyrir alla.

Samvinnan sem stendur

Saga Kaupfélags Suðurnesja er saga átaka og árangurs, sveiflna og sigra. Félagið hefur lifað af bruna, hrun og kreppur, en líka byggt upp stórmarkaði, atvinnulíf og menningu. Það hefur verið bakhjarl líknarstarfs, menningarviðburða og menntunar. Það hefur sýnt að samvinna getur skapað traust og byggt samfélag.

Á 80 ára afmælinu er ljóst að KSK er ekki aðeins verslunarfélag heldur menningararfur og framtíðarverkefni. Í anda fyrstu félaganna sem stofnuð voru fyrir nær tveimur öldum heldur það áfram að sýna að samtakamáttur fólksins sjálfs er afl sem mótar samfélag og framtíð.

Kaupfélag Suðurnesja 80 ára // myndir úr sögu félagsins