Valhöll
Valhöll

Viðskipti

Framtakssjóður kaupir 70% í Rafholti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 1. október 2024 kl. 14:53

Framtakssjóður kaupir 70% í Rafholti

Framtakssjóðurinn Aldir I slhf. hefur fest kaup á 70% hlut í rafverktakafyrirtækinu Rafholti ehf. sem hefur síðasta aldarfjórðunginn verið að mestu leyti í eigu þriggja Suðurnesjamannanna, þeirra Helga Rafnssonar, Grétars Magnússonar og Vilhjálms M. Vilhjálmssonar. Stofnendur og lykilstarfsmenn munu halda eftir 30% eignarhlut og starfa með sjóðnum að frekari uppbyggingu félagsins. KPMG var ráðgjafi seljenda í viðskiptunum og greint var frá í Viðskiptablaðinu.

„Með tilkomu nýrra fjárfesta skapast tækifæri til að þróa fyrirtækið frekar í samvinnu við starfsfólk þess með það að markmiði að mæta sífellt auknum kröfum viðskiptavina um heildstæða og áreiðanlega þjónustu,“ segir í tilkynningu Rafholts og Alda.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Það er mjög ánægjulegt að fá Aldir inn sem leiðandi hluthafa í Rafholti. Fjárfesting sjóðsins er mikil viðurkenning fyrir félagið og markar spennandi kaflaskil í sögu þess, þar sem lagður er grunnur að áframhaldandi vexti og aukinni þjónustu við viðskiptavini,“ segir Helgi Rafnsson, Framkvæmdastjóri Rafholts.

Aldir I er ríflega 9 milljarða króna framtakssjóður sem fjárfestir í fyrirtækjum með það fyrir augum að styrkja og bæta rekstur þeirra. Sjóðurinn er í eigu breiðs hóps stofnana- og einkafjárfesta en rekstur hans er í höndum sjóðastýringarfélagsins Aldir ehf.

Víkurfréttir tóku hús á Rafholtsmönnum árið 2022 og birtu viðtal við eigendur og starfsmenn sem birt var í þáttaröð VF, Suður með sjó.