Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Viðskipti

Ekki tilbúin að hugsa langt inn í framtíðina
Sandra Antonsdóttir á skrifstofunni. VF/Sigurbjörn
Föstudagur 26. janúar 2024 kl. 08:51

Ekki tilbúin að hugsa langt inn í framtíðina

„Þetta var þungt kjaftshög því það var allt komið af stað,“ segir Sandra Antonsdóttir, annar eigenda Einhamar Seafood en mikil óvissa ríkir með næstu skref hjá flestum, ef ekki öllum, grindvískum fyrirtækjum.

Erum í lausu lofti

Sandra og Stefán Kristjánsson, eiginmaður hennar, höfðu sent starfsfólk sitt sem flest er af erlendu bergi brotið, til síns heima eftir jarðhræringarnar 10. nóvember. „Starfsfólkið okkar var mjög ánægt með hvernig við tækluðum þessa stöðu sem upp kom í nóvember, þau voru hrædd og voru fegin að geta haldið til síns heima. Við vorum í sambandi við þau og langflest voru mjög jákvæð að snúa aftur til Íslands á nýju ári og hefja störf 9. janúar eins og við vorum búin að gefa út. Við vorum búin að flytja vélarnar aftur í húsnæðið fyrir jól, prufukeyrðum og allt gekk vel og því var okkur ekkert að vanbúnaði að byrja á fullum krafti 9. janúar. Allir voru svo ánægðir að hittast þennan þriðjudag, andinn var mjög góður og við litum jákvæð til framtíðarinnar en strax daginn eftir reið fyrsta áfallið yfir, þegar blessaður maðurinn féll ofan í sprunguna. Þar áður hafði orðið hörmulegt bílslys á Grindavíkurvegi svo það má segja að hvert áfallið hafi rekið annað og endaði með eldgosinu sunnudaginn 14. janúar. Ef þú spyrð mig núna út í framtíðina, get ég engu svarað. Við erum bara í lausu lofti. Hversu lengi viðskiptavinir okkar sýna okkur skilning er ekki gott að segja til um, fiskur verður áfram borðaður og ef við vinnum hann ekki og seljum, gerir einhver annar það og við missum hugsanlega þau viðskipti. Ég vona samt ekki en ég veit ekkert hvað næstu dagar bera í skauti sér.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nýkominn í heita pottinn þegar byrjaði að gjósa

Stefán, eiginmaður Söndru, er einn af meiri Grindvíkingum sem finnast, það var frægt viðtalið sem var tekið við hann í fréttatíma RÚV mánudagskvöldið 18. desember en þá var hann fluttur til Grindavíkur og var bjartsýnn, svo byrjaði að gjósa seinna það kvöld. „Við gátum ekki annað en hlegið að þessu þegar fyrra gosið kom, Stebbi var nýbúinn að koma sér fyrir í heita pottinum þegar byrjaði að gjósa og hann sá bjarmann. Hann var nú ekkert að flýta sér út úr bænum en kom auðvitað en var svo fljótur að snúa til baka þegar það var leyft. Ég ætlaði mér að koma til Grindavíkur um miðjan janúar og dvelja eitthvað og sjá til en þessir síðustu dagar sýna okkur að það verður líklega ekki hægt að búa í Grindavík á næstunni, hugsanlega næstu ár. Stebbi minn er mikill Grindvíkingur í sér og náttúrubarn, er með sínar rollur og vill hvergi annars staðar vera en í Grindavík, þess vegna er þetta mikið áfall fyrir hann. Við eigum íbúð á Hverfisgötu og okkur fannst ósköp gott að geta skroppið eina og eina helgi í Reykjavík en Stebba líst ekkert á að fara búa þarna alfarið, hann veit ekkert hvað hann á að gera og er að farast úr leiðindum, það á illa við hann að sitja og gera ekki neitt,“ segir Sandra.

Þungt kjaftshögg

Hjónin geta ekki tekið ákvörðun á þessari stundu, um framtíð fyrirtækisins. „Við vorum búin að ákveða að skrifstofurnar okkar yrðu í Hafnarfirði fram á vorið, vinnslan var komin af stað og allt leit vel út. Þess vegna er þetta þungt kjaftshögg núna og við getum ekki hugleitt framtíðina eins og sakir standa. Við erum alls ekki farin að huga að því að koma upp fiskvinnslu í öðrum bæ, við erum bara ekki komin þangað. Við ætlum að leyfa næstu dögum og vikum að líða en svo kemur auðvitað að því að við þurfum að taka einhverjar ákvarðanir eins og aðrir,“ sagði Sandra að lokum.

Sandra á spjalli við einn af starfsmönnum Einherja.