Viðskipti

Brjálað að gera hjá pípurum og fleiri verktökum
Rúnar Helgason.
Föstudagur 14. apríl 2023 kl. 06:05

Brjálað að gera hjá pípurum og fleiri verktökum

Ný námsbraut í pípulögnum hefst á haustönn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Mörg verkefni í gangi og framundan á Suðurnesjum og á Keflavíkurflugvelli.

Nám í pípulögnum hefst í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á næstu haustönn. Pípulagningameistarar á Suðurnesjum munu aðstoða skólann við að koma upp námsbraut en skortur hefur verið á pípulagningamönnum á svæðinu og sækja hefur þurft bóklegt nám til Hafnarfjarðar. Mikið er að gera hjá pípulagningafyrirtækjum sem og öðrum verktakafyrirtækjum á Suðurnesjum.

Þeir Benedikt Jónsson og Rúnar Helgason sem báðir reka pípulagningafyrirtæki á Suðurnesjum sögðu í samtali við Víkurfréttir að námsbraut í FS myndi án efa hjálpa til við það að fjölga pípulagningamönnum á svæðinu. „Við munum aðstoða við að koma brautinni á laggirnar með ýmsu móti, t.d. með tækjum og tólum og einnig við kennslu, alla vega í upphafi,“ sagði Benedikt.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Rúnar rekur Lagnaþjónustu Suðurnesja en það er stærsta pípulagningafyrirtækið á Suðurnesjum. Á nokkrum árum hefur starfsmannafjöldi aukist mikið. Fyrir þremur árum síðan voru 16 til 18 starfsmenn hjá Lagnaþjónustunni en eru í dag tuttugu og fimm og þörf á fleirum. Svipuð staða er hjá Benedikt og fleiri aðilum, næg verkefni og mikið framundan.

„Það er bara brjálað að gera. Flugstöðin á auðvitað nokkuð stóran þátt í því. Við erum með tíu manns fasta í vinnu þar. Við erum líka með stór verkefni hjá Landhelgisgæslunni og svo í vinnu hjá sveitarfélögunum þar sem mygluvandamál hafa komið upp. Það mun skipta okkur miklu máli að hafa námsbraut í FS. Hún mun nokkuð örugglega hjálpa okkur í framtíðinni. Það skiptir miklu máli að hafa námið á heimaslóðum. Við vitum um dæmi þar sem ungir menn hafa ekki getað af ýmsum ástæðum, sótt námið út fyrir Suðurnesin. Við höfum menntað marga eldri starfsmenn sem við höfum fengið til starfa því við höfum ekki haft nema en vonandi mun þessi nýja braut búa til fleiri pípara á Suðurnesjum í framtíðinni. Það er alla vega markmiðið. Svo þurfum við í píparastéttinni að markaðssetja starfið. Það hefur loðað við það leiðinda stimpill sem við þurfum að leiðrétta. Pípulagningastarfið er fjölbreytt, skemmtilegt og vel launað,“ sagði Rúnar Helgason.

Píparar eru ekki þeir einu á Suðurnesjum sem búa við það lúxusvandamál að það sé svo mikið að gera að þeir ráði varla við það. Sama er uppi á teningnum hjá fleiri iðnaðarmönnum, t.d. rafvirkjum og smiðum. Verkefnin eru næg á Suðurnesjum, verkefni sem ekki er hægt að sleppa eða hægja á vegna nauðsynlegrar stækkunar í og við flugstöðina, í miklum mygluverkefnum sem geta ekki beðið og mörgu fleiru. Isavia hefur nýlega gefið út framkvæmdaplan á Keflavíkurflugvelli til næsta áratugar upp á marga tugi milljarða króna. Sú stækkun kallar á mjög mörg störf á mörgum sviðum á Suðurnesjum.

Rafvirkjar frá Rafholti að störfum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.


Það er ekki hægt að segja að píparar séu í skítamálum.