Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Viðskipti

Bláa Lónið og Kerecis á heimssýningunni í Japan undir yfirskriftinni „Ekkert til spillis“
Fimmtudagur 11. september 2025 kl. 10:27

Bláa Lónið og Kerecis á heimssýningunni í Japan undir yfirskriftinni „Ekkert til spillis“

Ísland tekur þátt í samnorrænum sýningarskála á heimssýningunni í Osaka, Japan, ásamt Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Í dag, 11. september, sameinuðust tvö öflug íslensk fyrirtæki, Bláa Lónið og Kerecis, á sérstöku málþingi þar sem þau kynntu hugmyndafræði sína og framtíðarsýn undir yfirskriftinni „Ekkert til spillis“ (From Waste to Value).

Viðburðurinn var samvinnuverkefni fyrirtækjanna sem bæði hafa skapað verðmæti með því að nýta afurðir sem áður voru vannýtt. Sjálfbærni, nýsköpun og framþróun verða í brennidepli, auk þess sem rýnt verður í sögu fyrirtækjanna og áhrif þeirra á heilsu, vellíðan, ferðamennsku og líftækni.

„Íslendingar og Japanir eiga margt sameiginlegt og er mikilvægt fyrir þjóðirnar tvær að geta speglað sig í aðferðum hvor annarrar, sérstaklega nú þegar þær takast á við þá áskorun að mæta auknum straumi erlendra ferðamanna. Íslendingar og Japanir eiga auk þess ríka baðmenningu sem er mikilvæg fyrir þeirra þjóðarímynd, bæði inn á við og út á við,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri og stofnandi Bláa Lónsins.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Japanar og Íslendingar eiga það sameiginlega að bera gríðarmikla virðingu fyrir hafinu og auðlindum sjávar. Kerecis notar roð sem fellur til við fiskvinnslu til að framleiða sáraroð sem græðir sár og markhátta líkamsáverka sem oft eru lífshættulegir. Það er afskaplega ánægjuleg að fá að kynna þessa íslensku sjávarnýsköpun í Osaka og deila með Japönum,” segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis.

Á dagskrá málþingsins voru erindi frá stjórnendum fyrirtækjanna beggja ásamt pallborðsumræðum um framtíðarmöguleika í nýtingu náttúruauðlinda. Áhersla Bláa Lónsins var á þróun íslenskrar baðmenningar og ferðaþjónustu á Íslandi en Kerecis fjallaði um þróun lækningavara og líftækni.

Hreinn Pálsson, sendiherra Íslands í Japan, ávarpaði gesti og Ragnar Þorvarðarson, forsvarsmaður þátttöku Íslands á heimssýningunni, stýrði pallborðsumræðum. Að málþingi loknu var boðið upp á leiðsögn um norræna sýningarskálann og lauk viðburðinum með ávarpi frá Pétri Óskarssyni, framkvæmdastjóra Íslandsstofu.