Viðskipti

Algalíf í samstarf um þróun á lífplasthúð úr þörungahrati
Föstudagur 20. maí 2022 kl. 06:40

Algalíf í samstarf um þróun á lífplasthúð úr þörungahrati

Um 50 manns starfa hjá Algalíf Iceland ehf. á Ásbrú sem fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Framkvæmdir við fjögurra milljarða þreföldun á framleiðslunni eru vel á veg komnar. 

Líftæknifyrirtækið Algalíf á Ásbrú hefur skrifað undir samning við sprotafyrirtækið Marea ehf. um þróun á lífplasthúð úr þörungahrati. Um er að ræða næfurþunna lífniðurbrjótanlega húð um matvæli sem mun bæði minnka plastnotkun og draga úr matarsóun með því að auka geymsluþol matvæla.

„Þessi nýting er nýnæmi og getur orðið mikilvægt skref til aukinnar sjálfbærni á Íslandi og innlegg í verðmætaskapandi hringrásarhagkerfi framtíðarinnar. Hún kemur til viðbótar núverandi þróun Marea á lífplastfilmum úr þara,“ segir Svavar Halldórsson, markaðsstjóri Algalífs. 

Marea ehf. er sprotafyrirtæki á sviði líftækni, sem hefur undanfarin ár verið að þróa þaraplast, lífplast úr þara. Marea hefur meðal annars hlotið styrki frá Tækniþróunarsjóði, hvatningarverðlaun sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2021 og er keppandi í úrslitum í alþjóðlegu TOM FORD Plastic Innovation Prize. www.marea.is 

Líftæknifyrirtækið Algalíf er stærsta fyrirtækið í örþörungaframleiðslu á Íslandi og eitt af þeim stærstu í Evrópu. Það hefur getið sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir sjálfbærni, gæði og afhendingaröryggi. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 50 manns og ársveltan er rúmur einn og hálfur milljarður króna. Framkvæmdir við fjögurra milljarða þreföldun á framleiðslunni eru vel á veg komnar.

Líftæknifyrirtækið Algalíf Iceland ehf. var stofnað 5. maí 2012. Fyrirtækið framleiðir fæðubótaefnið astaxanthín úr örþörung. Algalíf leggur mikla áherslu á sjálfbærni en framleiðslan fer fram með umhverfisvænum orkugjöfum í stýrðu umhverfi innanhúss í 5.500 m² húsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ. Við framleiðsluna eru bundin um 75 tonn af koltvísýringi en um 60 tonn af súrefni eru losuð út í andrúmsloftið. Ekkert jarðefnaeldsneyti er notað í framleiðsluferlinu hjá Algalíf og efnanotkun er í lágmarki. Einu hráefnin til framleiðslunnar eru auk þörunganna sjálfra, vatn, næring og ljós (raforka). Annar úrgangur en súrefni er lífrænt þörungahrat sem nú er nýtt sem áburður.

www.algalif.is.