Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Pistlar

Skelfilega kalt og erfitt tíðarfar
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 17. mars 2023 kl. 06:07

Skelfilega kalt og erfitt tíðarfar

Þá er marsmánuðurinn kominn í gang og ekki er nú hægt að segja að hann byrji vel því langvarandi og stíf norðanátt hefur verið í gangi og vægast sagt verið alveg skelfilega kalt núna – og frekar erfitt tíðarfarið.

Það er reyndar búið að vera ansi áhugavert að fylgjast með stóru uppsjávarskipunum veiða loðnu rétt utan við Sandgerði og skipin eru vægast sagt ansi stór og mikil og gnæfa þarna fyrir utan eins og skemmtiferðaskip.

Eins og ég hef áður komið inn á þá er sorglegt að öll þessi loðna sem er verið að moka upp rétt utan við ströndina og ekki eitt einasta gramm af loðnunni kemur inn á hafnir á Suðurnesjunum.  Reyndar er það nú svo að skipin eru orðin miklu stærri og til að mynda þá komast engin af núverandi loðnuskipum til Sandgerðis, einhver hluti þeirra kemst inn til Grindavíkur en reyndar komast öll inn í Helguvík þar sem að dýpi er mikið.

Varðandi aflabrögð þá hafa þau verið nokkuð góð. Ef við lítum á netabátana þá er Erling KE með 88 tonn í sjö róðrum, Grímsnes GK með 69 tonn í tólf og Maron GK með 53 tonn í ellefu róðrum. Bæði Grímsnes GK og Maron GK hafa verið með netin sín rétt utan við Straumsvík og sjást þessir fallegu rauðu bátar mjög vel þegar Reykjanesbrautin er ekin framhjá höfninni í Straumsvík. Halldór Afi GK var með 15 tonn í fimm róðrum.

Hjá dragnótabátunum er Sigurfari GK með 79 tonn í sex róðrum, Maggý VE með 61 tonn í fimm, Benni Sæm GK með 60 tonn í sex og Aðalbjörg RE með 21 tonn í fimm, allir að landa í Sandgerði.

Nokkuð margir línubátar hafa verið að veiðum utan við Grindavík og stærri bátarnir hafa verið út á Selvogsbanka sem eru þekkt fiskimið. Sighvatur GK var með 287 tonn í tveimur róðrum, Páll Jónsson GK með 170 tonn í einni löndun, Valdimar GK með 152 tonn í tveimur og  Fjölnir GK með 121 tonn í einni.

Af minni bátunum er t.d. Gísli Súrsson GK með 88 tonn í sjö róðrum, Auður Vésteins SU með 77 tonn í sex, Óli á Stað GK með 73 tonn í níu, Dúddi Gísla GK (sem áður hét Hulda GK) með 64 tonn í fjórum, Sævík GK með 48 tonn í fjórum, Margrét GK með 48 tonn í fjórum, Daðey GK með 44 tonn í fimm, Gulltoppur GK með 26 tonn í fimm, Katrín GK með 25 tonn í tveimur, Hópsnes GK með 21 tonn í fjórum og Geirfugl GK með 18 tonn í tveimur. Flestir að landa í Grindavík og nokkrir að landa bæði í Grindavík og Sandgerði.

Togarinn Sóley Sigurjóns GK, sem hefur verið að veiðum utan við Sandgerði og landað í Keflavík og gengið nokkuð vel, er kominn með 266 tonn í tveimur löndunum og mest 135 tonn í löndun.

Aðrir togarar eru t.d. Sturla GK með 202 tonn í fjórum löndunum, Vörður ÞH 191 tonn í tveimur, Jóhanna Gísladóttir GK með 123 tonn í tveimur og Áskell ÞH með 96 tonn í einni, allir að landa í Grindavík.