Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Símasnilldin
Föstudagur 1. september 2023 kl. 06:12

Símasnilldin

Þetta sumar eins og önnur hafa velflest sveitarfélög haldið sínar bæjarhátíðir. Boðið hefur verið upp á allskonar góðgæti til að laða fólk og ferðamenn á svæðið. Kjötsúpur, humarsúpur, fiskisúpur, kótilettur og allskonar annað, auk listsýninga og tónlistaratriða. Markmiðið hefur verið eitt; að hittast, eiga góðan dag, tala saman og hafa gaman af lífinu. Þetta leiðir huga minn að öðru tengt samskiptum. 

Fyrir tæpum eitt hundrað og fimmtíu árum hellti Alexander Graham Bell yfir sig sýru og vantaði hjálp. Hann var einn inni í herbergi og var að undirbúa prófun á tæki sem hann hafði smíðað í samvinnu við vin sinn Tomas Watson, sem var staddur allt annars staðar í húsinu, og átti ekki möguleika eftir eðlilegum leiðum að heyra hjálparbeiðni Bell. En hann heyrði hana í gegnum tækið. Talsíminn var orðinn til. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á þessum tæpu tveimur mannsöldrum hefur margt breyst. Tæknin veður áfram á slíkum hraða að nú þarf orðið gervigreind til að geta fylgst almennilega með. Ný tæki til allskonar nota sem við vissum ekki einu sinni að við þyrftum að nota verða til. Eitt þessara tækja er snjallsíminn. Með tilkomu hans erum við alltaf, allstaðar í sambandi. Við lifum lífinu hratt og öflum okkur allskonar upplýsinga í gegnum þetta litla tæki. En það hefur sína vankanta. Það stelur athygli þeirra sem nota, þegar viðkomandi ætti að vera að einbeita sér að öðru. Nú beinast augun að grunnskólakrökkum sem virðast ekki geta sinnt námi sínu af fullum hug með þetta tæki nærri sér. En það eru  fleiri blessuð börnin sem ekki virðast geta umgengist þetta litla tæki. Fyrst dettur mér í hug alþingismennirnir okkar. 

Auðvitað er það ákveðin pervertismi að fylgjast með umræðum frá  Alþingi, enda ekkert að gerast. En við réðum þetta fólk til  starfa, að sitja í þingsal, meta hvað þar er sagt og hvað skuli ákveða. Að tala saman. Af upptökum þaðan virðist ekkert slíkt vera að gerast. Stór hluti þingmanna virðist helst vera í einhverjum tölvuleikjum, sms eða dotta undir sumum magnþrungnum ræðum samstarfsmanna sinna. Helst á þetta við ráðherra borðin en þar sitja þeir sem mestu ráða. Kannski væri bara best að byrja á að banna notkun síma í þingsal og vona að einhver fari að stjórna landinu, og láti ekki símann vera að trufla sig. Að gera eins og við gerum á Ljósanótt, hittumst og tölum saman og höfum gaman  af lífinu. Gleðilega Ljósanótt!