Public deli
Public deli

Pistlar

Rólegt vegna hrygningastopps
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 12. apríl 2024 kl. 06:02

Rólegt vegna hrygningastopps

Núna er frekar rólegt yfir fiskveiðum hérna frá Suðurnesjunum, aðallega út af því að núna er hið svokallaða hrygningstopp í gangi. Hrygningastoppið nær til 16. apríl en þeir sem vilja veiða verða þá að fara út fyrir tólf mílurnar.

Meðan stoppið er þá eru netabátarnir sem eru í netarallinu einu bátarnir sem eru á veiðum innan bannsvæðis. Netarallið hefur verið við lýði hérna við landið í um 25 ár en það voru skipstjórar frá Suðurnesjum sem vildu á sínum tíma að netarall væri líka notað til mælingar á þorskstofninum en fram að þeim tíma þá var einungis miðað við togararallið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Núna í ár eru eftirfarandi bátar í rallinu: Leifur EA er með allt Norðurlandið, Magnús SH er með Breiðarfjörðinn, Saxhamar SH er með Faxaflóann og að Reykjanesi, hann byrjaði að landa í Reykjavík en er núna kominn til Sandgerðis, Friðrik Sigurðsson ÁR, sem Hólmgrímur er búinn að vera með á leigu, er með út af Grindavík og að Skeiðarárdjúpi og fyrir austan er Sigurður Ólafsson SF.

Það verður áhugavert að sjá hvernig bátunum mun ganga, Friðrik Sigurðsson ÁR er núna kominn með 80 tonn í aðeins þremur róðrum og mest 37 tonn í einni löndun í rallinu og Saxhamar SH með 39 tonn í sex róðrum.

Vísisbátarnir Páll Jónsson GK og Sighvatur GK komu báðir til Grindavíkur til löndunar núna snemma í apríl en þangað hafa þeir ekki komið síðan snemma í janúar á þessu ári, þeir hafa að mestu verið að landa í Hafnarfirði. Páll Jónsson GK kom með 84,2 tonn og Sighvatur GK kom með 115,2 tonn.

Frystitogarinn Tómas Þorvaldsson GK kom líka til Grindavíkur með ansi stóra löndun en 852 tonnum var landað úr skipinu og af þessum afla voru 244 tonn af þorski, 132 tonn af ufsa og 187 tonn af karfa. Sturla GK er búinn að koma tvisvar til Grindavíkur með 134 tonn.

Sóley Sigurjóns GK er fyrir norðan á rækjunni og hefur landað 35,7 tonnum í einni löndun, af því var rækja 22,3 tonn.

Hjá dragnótabátunum er Siggi Bjarna GK kominn með 49 tonn í þremur róðrum og er þegar þetta er skrifað næstaflahæsti dragnótabáturinn í apríl. Bátur sem á sér nokkuð langa sögu á Suðurnesjum er aflahæstur. Sá bátur heitir Ásdís ÍS og er kominn með 68 tonn í sex róðrum en þessi bátur hét áður Örn KE og skipstjóri á honum var Karl Ólafsson, sem í dag er með Maggý VE, en Maggý VE hefur landað 16 tonn í tveimur róðrum.

Aðalbjörg RE með 19 tonn í þremur róðrum, Benni Sæm GK 46 tonn í þremur og Sigurfari GK 45 tonn í þremur, allir í Sandgerði.

Þrír bátar eru á grásleppu héðan frá Suðurnesjum. Garpur RE er í Grindavík og kominn með 6,3 tonn í fjórum róðrum og af því þá er grásleppa 3,8 tonn, Guðrún GK er með 3,5 tonn í þremur og af því er grásleppa 3,1 tonn og Sunna Líf GK 4,5 tonn í fjórum róðrum og af því er grásleppa 4,1 tonn. Tveir síðastnefndu að landa í Sandgerði.