Leikskólinn Gimli orðinn UNESCO skóli
Leikskólinn Gimli í Reykjanesbæ hefur hlotið formlega viðurkenningu sem UNESCO-skóli og er þar með fyrsti leikskólinn á Suðurnesjum og annar á Íslandi sem gengur til liðs við alþjóðlegt skólanet Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Viðurkenningin er mikilvægur áfangi fyrir skólann, sem um árabil hefur byggt starf sitt á gildum sem samræmast heimsmarkmiðum og áherslum UNESCO.
UNESCO-skólar vinna að fræðslu og uppeldi með áherslu á alþjóðleg málefni, lýðræði, mannréttindi, fjölmenningu og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með það að leiðarljósi að efla frið, virðingu og víðsýni. Starfsfólk Gimli segir að hugsjónir skólans og gildi UNESCO falli vel saman; í daglegu starfi hafi verið lögð áhersla á jafnrétti, kærleika, umhyggju og virðingu.
Gimli starfar eftir Hjallastefnunni, þar sem mannrækt barna og starfsfólks er í forgrunni. Kennarar vinna í lotum yfir árið með áherslu á meðal annars aga, sjálfstæði, samskipti, vináttu og áræði. Skólinn hefur einnig kennt jóga frá 2007 og vinnur með núvitund og náttúrutengsl í vettvangsferðum allt árið.
Ferlið að UNESCO-viðurkenningu hófst í kjölfar kynningar haustið 2024 og sótti Gimli um á vormánuðum 2025; umsóknin var samþykkt síðla árs. Gimli mun meðal annars vinna sérstaklega með heimsmarkmið 12 – Ábyrg neysla og framleiðsla, og flagga UNESCO-fánanum 5. júní og 15. september ár hvert.





