Kvöldverðarboð stjórnarfólks íþróttahreyfingarinnar á Suðurnesjum
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar (ÍRB) og Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS) buðu á dögunum stjórnarfólki íþróttahreyfingarinnar á Suðurnesjum í kvöldverðarboð í golfskálanum í Leiru. Um 100 manns frá öllum íþróttafélögum og deildum þeirra mættu á viðburðinn sem var sögulegur í ljósi þess að um er að ræða fyrsta skipti sem bæði íþróttahéröðin á Suðurnesjum koma saman til að fagna og þakka sjálfboðaliðum og starfsfólki íþróttahreyfingarinnar fyrir sín störf.
Sérstakir gestir kvöldsins voru þeir Willum Þór Þórsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður Ungmennafélags Íslands. Boðið var upp á tveggja rétta matseðil þar sem lambalæri og sykurbrúnaðar kartöflur ásamt meðlæti voru í aðalrétt og súkkulaðikaka með rjóma í eftirrétt.
Svæðisfulltrúar íþróttahéraðanna á Suðurnesjum, þau Sigurður Friðrik Gunnarsson og Petra Ruth Rúnarsdóttir buðu upp á spennandi spurningakeppni milli borða og í lok kvölds mætti uppistandarinn Jóhann Alfreð og tryllti lýðinn úr hlátri svo um var talað.
Kvöldið þótti takast einkar vel og verður vonandi að árlegum viðburði á svæðinu.








