Pistlar

Palli var einn í heiminum
Föstudagur 27. mars 2020 kl. 08:50

Palli var einn í heiminum

Ég eignaðist bókina Palli var einn í heiminum fyrir nákvæmlega fimmtíu árum síðan. Valur bróðir átti hana með mér miðað við það sem er skrifað á fremstu síðuna í bókinni af mömmu heitinni, hún skrifaði nöfn okkar beggja þar. Það eru margar bækur á Íslandi með nöfnum eða einhverju skrifuðu á fyrstu síðu. Gamall siður en skemmtilegur. Ég fann bókina á æskuheimilinu mínu fyrir nokkrum árum og fór með hana heim en af einhverjum óskýrðum ástæðum var bókin komin í mínar hendur aftur í síðustu viku. Ég las hana fyrir þriggja ára afastelpurnar mínar og þeim fannst skrýtið hvernig Palli gat farið inn í næstu búð og fengið sér það sem hann vildi og farið í næsta „strætó“ og keyrt hann sjálfur þó hann kynni ekki að keyra bíl. Hann gat gert nær allt sem hann langaði til. En þetta var ekkert gaman. Það er ekkert gaman að vera bara einn. Svo vaknaði Palli og var feginn að þetta var draumur.

Ástandið núna minnir að einhverju leyti á Palla - einan í heiminum nema að maður getur ekki gengið inn í næsta bakarí og fengið sér ókeypis snúð. Er þetta skrýtinn draumur sem allir eru að dreyma? Upplifunin þegar maður fer í göngu er svolítið sérstök. Það eru fáir á ferli og samfélagið er í hægagangi. Nærri því enginn á ferð. Flugstöð sem er full af fólki flesta daga ársins er nánast tóm. Maður gæti stolist í sundlaugina. Það er enginn þar og því væri ekkert gaman. Mér finnst gaman að hitta sundfélaga mína í lauginni. Mér finnst leiðinlegt að geta ekki knúsað neinn eða heilsað almennilega. Ég er ekki að fara í utanlandsferðina um páskana sem ég hafði beðið eftir. Langaði svo í sól eftir þennan hundleiðinlega vetur. Vonandi fer þessum draumi að ljúka og ég vakna eins og Palli. Er þetta ekki annars draumur. Eruð þið ekki öll í þessum sama draumi? 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við erum öll í þessum skrýtna draumi sem er veruleikinn okkar næstu vikurnar og verðum að standa saman í gegnum hann. Þurfum að bregðast við veiru sem herjar á okkur. Það er bláköld staðreynd. Við skulum gera það. Saman.

Á veirutímum breytist margt og hefur áhrif á margt eins og útgáfu Víkurfrétta. Í þessari viku og líklega næstu vikur verður blaðið gefið út „rafrænt“ og ekki prentað. Við vonum að þið, kæru lesendur takið því vel. Sjáum svo til þegar þessum skrýtna draumi lýkur. En eins og margir hafa bent á verða oft til tækifæri á skrýtnum tímum. Við á Víkurfréttum gátu leyft okkur ýmislegt í útgáfu blaðsins í þessari viku. Það er hægt að gera ýmislegt í rafrænu blaði sem er ekki hægt í pappír. Margt skemmtilegt. Við vonum að þið njótið vel. Ef amma og afi eru ekki með spjaldtölvu eða tölvu megiði alveg hjálpa þeim að lesa blaðið. Eða kennt þeim á græurnar til að lesa á rafrænan hátt. 

Við ræddum við um á þriðja tug manna og kvenna í þessari útgáfu og auðvitað var málefnið svolítið mikið tengt COVID-19. Það er gaman að heyra hvernig fólk er að díla við lífið þessa dagana. 

Stöndum saman en munum að virða tveggja metra regluna, þó það sé erfitt.

Páll Ketilsson
ritstjóri VF