Breytingar á íbúðagerðum í Teiga- og Klappahverfi
Framkvæmda- og skipulagsráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt tillögu að endurskoðun deiliskipulags fyrir seinni hluta Teiga- og Klappahverfis, svokallaðs svæðis „Ofan Garðvangs“, og leggur til að bæjarstjórn samþykki að tillagan verði auglýst og kynnt samkvæmt 41. grein skipulagslaga.
Málið hefur verið tekið upp að nýju þar sem endurtaka þurfti málsmeðferð vegna óverulegrar breytingar á íbúðargerðum sem gera þurfti í greinargerð Aðalskipulags Suðurnesjabæjar 2022–2034. Afgreiðslu málsins hafði áður verið frestað á 69. fundi ráðsins.
Með breytingunum er meðal annars lagt til að gatna- og lóðaskipulag við Straumklöpp taki breytingum. Þar verði þremur parhúsalóðum (2–12) breytt í raðhúsalóðir með þremur íbúðum (2–18). Þá verði þremur raðhúsalóðum (1–17) breytt í eina raðhúsalóð með nýrri húsgerð fyrir sjö íbúðir (1–13) og eina parhúsalóð (15–17). Fram kemur að nýtingarhlutfall lóða haldist sambærilegt og í fyrri tillögu.
Næsta skref, ef bæjarstjórn samþykkir, er að tillagan fari í formlega auglýsingu og kynningu þannig að íbúar og hagsmunaaðilar geti gert athugasemdir við hana.






