Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Pistlar

Ólympíueftirvænting
Föstudagur 14. júní 2024 kl. 06:07

Ólympíueftirvænting

Það styttist óðum í Ólympíuleikana hér í París en þeir verða settir 24. júlí og standa yfir til 14. ágúst. Og svo heldur veislan áfram með Ólympíuleikum fatlaðra frá 28. ágúst til 8. september. Það er spennandi tilhugsun að búa í Ólympíuborg og fá leikana beint í æð svo að segja.

Eitt er þó víst að Ólympíuleikarnir munu sannarlega hafa áhrif á daglegt líf okkar Parísarbúa. Það er búist við a.m.k. tveimur milljónum gesta á þessu þriggja vikna tímabili en til samanburðar er það nálægt þeim fjölda ferðamanna sem sótti Ísland heim allt árið í fyrra. Traffík og mannmergð er því það sem koma skal. Og ekki bara vegna fjöldans, heldur einnig vegna gríðarlegrar öryggisgæslu, götulokana, áhorfendapalla sem búið er að byggja vítt og breitt um borgina og svo mætti lengi telja. Það verður snúið að fara um borgina og aðgengi víða svo takmarkað að íbúar þurfa að sækja um sérstakan QR-kóða til að vera heimilað að fara heim til sín.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er farin að heyra dáldið tuð í frönskum Parísarbúum, sem margir hverjir hafa hreinlega ákveðið að yfirgefa borgina á meðan leikarnir fara fram. Það er pirringur í þeim og það er mikið verið að rifja upp alls konar loforð sem gefin voru fyrir tíu árum þegar París kepptist um að halda leikana 2024. Það átti að vera búið að klára metrólínur á báða stóru flugvellina, metróið átti að vera ókeypis á meðan á leikunum stendur – alla vega fyrir íbúa – og þar frameftir götunum. En þvert á þessi loforð var það endanlega tilkynnt að það næðist ekki að klára flugvallarlínurnar, og snemma á þessu ári tilkynnti svo lögreglustjórinn í París að metrómiðinn myndi margfaldast í verði á Ólympíu-tíma-bilinu. Ekki minnkaði tuðið við það.

En það er líka margt gott. Borgin er farin að skarta sínu fegursta, búið að mála, dytta og laga allt sem bilað var og farið að láta á sjá. París er alltaf falleg en hún er einstaklega falleg þessa dagana.

Þetta verður kraðak og þetta verður allt önnur París en við erum vön. Það var örugglega líka þannig í London, Barcelona, Peking og í öðrum Ólympíuborgum. Við fjölskyldan nennum ekki þessu tuði og  erum bara frekar spennt. Reyndar hefði það verið mun meira spennandi ef íslenska handboltalandsliðinu hefði tekist að tryggja sig inn á leikana, en það gekk því miður ekki í þetta skiptið.

Við hlökkum til að fyllast Ólympíuandanum og upplifa stemmninguna. Og ef svo skyldi fara að þetta yrði allt að allsherjar klessu sem við nennum ekki að standa í, þá neyðumst við bara til þess að halda til á svölunum okkar og hlusta á fagnaðarlætin í nágrenninu frá tenniskeppninni á Roland Garros og úr fótboltanum frá PSG vellinum, Parc des Princes.

Þá er bara vonandi að það verði gott veður því annars byrjum við sannarlega að tuða!