Menntaráð kallar eftir skýrari áætlun um skólalóðir
– farið yfir framkvæmdir og fjármögnun
Menntaráð Reykjanesbæjar hefur tekið til umfjöllunar stöðu skólalóða grunnskóla í sveitarfélaginu eftir að fulltrúi skólastjóra grunnskóla í menntaráði vakti athygli á óvissu um framhald framkvæmda og fjármögnun á næstu árum.
Málið var rætt á fundi menntaráðs 12. desember, þegar erindi frá Sigurbjörgu Róbertsdóttur, fulltrúa skólastjóra, var lagt fram og fylgt eftir. Þar var óskað eftir svörum um stöðu og áform varðandi fullnaðarframkvæmdir á skólalóðum. Jafnframt var lagt fram minnisblað frá eignaumsýslu Reykjanesbæjar þar sem farið er yfir stöðu framkvæmda og áætlun fyrir árið 2026.
Á fundinum mætti Hreinn Ágúst Kristinsson, deildarstjóri eignaumsýslu, og samþykkt var að eignaumsýsla Reykjanesbæjar og starfshópur um endurnýjun skólalóða hittust til að fara yfir stöðu málsins.





