Reykjanesbær hlýtur styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála
Reykjanesbær hefur hlotið tveggja milljóna króna styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála til verkefnisins Viltu kaffi? – Íslenskuspjallhópur fyrir íbúa með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Markmið verkefnisins er að skapa öruggt og afslappað rými þar sem íbúar geta æft sig í íslensku, kynnst nærumhverfinu og byggt upp tengsl við aðra íbúa. Verkefnið leggur áherslu á að íslenska sé notuð á eðlilegan og jákvæðan hátt í félagslegum aðstæðum og að stuðlað sé að gagnkvæmum skilningi og virðingu milli innflytjenda og innlendra íbúa.
Unnið verður í nánu samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) sem einnig fékk styrk fyrir verkefnið Íslenskuspor – tengsl í gegnum tungumál. Verkefnin munu styðja hvort við annað og styrkja sameiginlegan grunn fyrir tungumálastuðning og samfélagsþátttöku á svæðinu. Bókasafn Reykjanesbæjar og Rauði krossinn eru samstarfsaðilar og koma að skipulagningu og framkvæmd spjallhópanna, sem tengjast jafnframt móttökuáætlun Suðurnesja, Velkomin til Suðurnesja.
Áætlað er að verkefnið hefjist á vormánuðum og verður öllum íbúum opið, óháð íslenskukunnáttu. Styrkurinn var afhentur á málþingi innflytjendaráðs 10. desember, á alþjóðlega mannréttindadeginum. Alls hlutu 28 verkefni styrk úr sjóðnum að heildarupphæð 70 milljónir króna.





