RNB þrettándinn
RNB þrettándinn

Fréttir

Reykjanesbær hlýtur styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála
Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS, Eydís Rós Ármannsdóttir, verkefnastjóri skrifstofu velferðarsviðs hjá Reykjanesbæ, og Þórey Ösp Gunnarsdóttir, safnstjóri hjá Bókasafni Reykjanesbæjar. Mynd: Af vef Reykjanesbæjar.
Sunnudagur 4. janúar 2026 kl. 14:17

Reykjanesbær hlýtur styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála

Reykjanesbær hefur hlotið tveggja milljóna króna styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála til verkefnisins Viltu kaffi? – Íslenskuspjallhópur fyrir íbúa með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Markmið verkefnisins er að skapa öruggt og afslappað rými þar sem íbúar geta æft sig í íslensku, kynnst nærumhverfinu og byggt upp tengsl við aðra íbúa. Verkefnið leggur áherslu á að íslenska sé notuð á eðlilegan og jákvæðan hátt í félagslegum aðstæðum og að stuðlað sé að gagnkvæmum skilningi og virðingu milli innflytjenda og innlendra íbúa.

Unnið verður í nánu samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) sem einnig fékk styrk fyrir verkefnið Íslenskuspor – tengsl í gegnum tungumál. Verkefnin munu styðja hvort við annað og styrkja sameiginlegan grunn fyrir tungumálastuðning og samfélagsþátttöku á svæðinu. Bókasafn Reykjanesbæjar og Rauði krossinn eru samstarfsaðilar og koma að skipulagningu og framkvæmd spjallhópanna, sem tengjast jafnframt móttökuáætlun Suðurnesja, Velkomin til Suðurnesja.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Áætlað er að verkefnið hefjist á vormánuðum og verður öllum íbúum opið, óháð íslenskukunnáttu. Styrkurinn var afhentur á málþingi innflytjendaráðs 10. desember, á alþjóðlega mannréttindadeginum. Alls hlutu 28 verkefni styrk úr sjóðnum að heildarupphæð 70 milljónir króna.

RNB þrettándinn
RNB þrettándinn