Vill hefja skipulagsbreytingar vegna stækkunar Njarðvíkurhafnar
Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar hefur lagt til að Reykjaneshöfn hefji vinnu við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna fyrirhugaðrar stækkunar hafnarsvæðis Njarðvíkurhafnar.
Á fundi ráðsins 11. desember kom fram að Stefán Gunnar Thors, sviðsstjóri umhverfis- og skipulags hjá VSÓ-ráðgjöf, hafi verið fenginn til að undirbúa og leiða þá skipulagsvinnu sem þarf til að uppbyggingin geti orðið. Ráðið fól Halldóri K. Hermannssyni, sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs, að óska eftir heimild umhverfis- og skipulagsráðs til að vinna geti hafist.
Jafnframt vill ráðið að samgöngutengingar við hafnarsvæðið verði teknar til skoðunar og að skipulagsvinnan verði í samræmi við heildarsýn Reykjanesbæjar á samgöngumálum. Gert er ráð fyrir að kynning skipulagslýsingar og vinnslutillögu verði sameinuð í einni málsmeðferð og að atvinnu- og hafnarráð leiði vinnuna í nánu samráði við umhverfis- og skipulagsráð.





