KSTeinarsson sýning
KSTeinarsson sýning

Pistlar

Nýtt fiskveiðiár hafið
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 12. september 2025 kl. 06:15

Nýtt fiskveiðiár hafið

– góð byrjun en fljótt dregið úr afla

Nýtt fiskveiðiár er komið í gang og hefjast því veiðar í Faxaflóa. Eins og sagan hefur oft sýnt, þá er fyrsti róðurinn jafnan mjög góður – og það átti við núna. Verulega dróst úr afla næstu daga, sérstaklega af þorski.
Ásdís ÍS fór norður

Í Keflavík landaði Ásdís ÍS aðeins 23 tonnum í fjórum róðrum. Mest af aflanum var skarkoli en í síðasta róðrinum kom þó einhver þorskur, 8,9 tonn. Að því loknu hélt báturinn til Bolungarvíkur.

Flestir bátarnir landa í Reykjavík. Þar hefur: Stapafell SH landað 27 tonnum í fjórum róðrum, mest skarkoli. Esjar SH komið með 36 tonn í fjórum róðrum, þar af mest 14 tonn í einni löndun, aðallega þorskur. Matthías SH er með 38 tonn í aðeins tveimur róðrum, þar af 30 tonn í fyrsta róðri sínum, sem var mjög þorskmeiri.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Geir ÞH hóf veiðar í Faxaflóa í fyrsta sinn. Fyrsti róðurinn var stór, 29 tonn, þar af 17 tonn í einu kasti. Síðar dró þó hratt úr veiði og síðasta löndunin var aðeins 800 kíló. Heildaraflinn var 35 tonn í þremur róðrum. Báturinn yfirgaf að lokum miðin og sigldi austur til Þórshafnar – um 330 mílna ferð.

Aðalbjörg RE með lengstu söguna

Elsti báturinn í þessum veiðum er Aðalbjörg RE, sem hefur löngum verið á miðunum í Faxaflóa. Hún byrjaði þetta fiskveiðiár vel og er með 43 tonn í fjórum róðrum. Fyrsti róðurinn gaf 16 tonn, þar af 14 tonn af skarkola.

Í Sandgerði hafa tveir bátar verið á kolamiðum rétt utan við Garð og Garðskagavita: Benni Sæm GK er með 45 tonn í fimm róðrum, mest 13 tonn. Siggi Bjarna GK er aflahæstur allra báta í Faxaflóanum með 59 tonn í fimm róðrum, mest 19,5 tonn. Uppistaðan hjá báðum bátum er skarkoli.

Netabátarnir einnig á miðunum

Ekki eru það aðeins dragnótabátarnir sem hafa verið á veiðum í Faxaflóa – heldur einnig netabátarnir sem veiða fyrir Hólmgrím. Þar er Sunna Líf GK aflahæst með 11 tonn í fjórum róðrum. Aflatölur hinna eru: Emma Rós GK 8,7 tonn í fjórum róðrum. Svala Dís KE 7,3 tonn í fjórum róðrum. ddi Afi GK 6,1 tonn í fjórum róðrum og Halldór Afi GK 5,4 tonn í fjórum róðrum.

Tveir stórir netabátar frá Suðurnesjum

Tveir stórir netabátar munu róa frá Suðurnesjum í haust og vetur. Friðrik Sigurðsson ÁR er kominn til Njarðvíkur og mun veiða fyrir Hólmgrím. Erling KE hefur legið í slipp frá því í júní en er nú kominn inn í hús þar sem vinna stendur yfir, m.a. málningarvinna.

Það er athyglisvert að aðeins tveir stórir netabátar stunda veiðar frá Suðurnesjum núna. Fyrir 25 árum réru um 20 stórir netabátar frá svæðinu – skýr vísbending um miklar breytingar á undanförnum áratugum.