Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Pistlar

Nú hafa þau sýnt sitt sanna sjálf !
Föstudagur 2. maí 2025 kl. 06:00

Nú hafa þau sýnt sitt sanna sjálf !

Fiskurinn í sjónum er auðlind, og sameign íslensku þjóðarinnar. En hann er takmörkuð auðlind og ber að vernda. Þess vegna var kvótakerfinu komið á árið 1983 til þess að vernda íslenska fiskistofna frá ofveiði og tók formlega gildi árið 1984. Við úthlutun kvótans var byggt á aflareynslu skipa síðustu þriggja ára þar á undan. Síðan hefur margt breyst. Þau skip sem þá fengu úthlutað kvóta eru sennilega flest komin í brotajárn, eða úreldingu. Eftir standa kvótakóngar sem síðan hafa sópað til sín verðmætunum af auðlindinni og vilja engu breyta. Þeir telja sig eiga fiskinn í sjónum.

Við höfum á undanförnum vikum fengið að sjá auglýsingar SFS. Ungt fólk er fengið til að sýna okkur fram á hversu mikilvæg útgerðin er í hverju þorpi, hverjum bæ. Við lifum jú öll á sjávarútveginum og hver breyting sem gerð er á núgildandi reglum kallar á hamfarir er innihald þessara auglýsinga. Skilaboð SFS eru skýr í þessum auglýsingum, borgi þau meira en nú er til samfélagsins verða engin kaffihús, engin bakarí, engin íþróttahús og engin verkstæði ásamt mörgu öðru sem mun hverfa. Svartnætti mun skella á.

Ástæða þessara auglýsinga eru fyrirhugaðar breytingar nýrrar ríkistjórnar á innheimtu gjalds vegna notkunar á sameiginlegri eign þjóðarinnar. Það á sem sagt ekki lengur að innheimta það sem þeir vilja borga, heldur byggja innheimtuna á raunverulegu verðmæti aflans. Verði kerfinu ekki haldið óbreyttu hóta sægreifarnir og kvótakóngarnir því að flytja vinnslu aflans til útlanda. Þannig ná þeir að hámarka arðinn af auðlindinni þannig að arðurinn fari áfram óskiptur í sama vasa og verið hefur hingað til, þeirra.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

En hvaða krónur og aurar eru það sem valda þessum ofurviðbrögðum SFS, sem telja sig eiga fiskinn í sjónum. Gott er að líta til ársins 2023, sem var gott ár fyrir útgerðina. Þá var hreinn hagnaður útgerðarinnar að frádregnum gjöldum (veiðigjöld innifalinn) 68 milljarðar króna. Við breytinguna færi þessi hagnaður niður í 60 milljarða. Samanlagður hreinn hagnaður útgerðarinnar síðustu þriggja ára er 191 milljarður króna. Veiðigjöld hafa numið 28 milljörðum.

Nú er verið að leiðrétta greiðslu veiðigjaldanna, gera þau sanngjarnari þannig að aukið fé fáist til sameiginlegs reksturs samfélagsins fyrir tekjur af eigin auðlind. Það geta þeir sem telja sig eiga fiskinnn í sjónum greinilega ekki sætt sig við. Þeir vilja miða við á hvað verði þeir selja sjálfum sér fiskinn í sínu bókhaldi. Ég á þetta, ég má þetta!

Auglýsingar síðustu vikna hafa aðeins sýnt mér eitt. SFS, sem telja sig eiga fiskinn í sjónum hafa litla samfélagslega kennd. Hjá þeim snýst þetta fyrst og fremst um krónur, aura og hagnað í eigin vasa. Alveg eins og það var í norsku þáttunum Exit með þeim ógeðfellda söguþræði um spillingu og græðgi sem þar var að finna, og auglýsingar þeirra nú byggja á. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa nú sýnt sitt sanna sjálf og þann hugarheim sem þau vilja hrærast í.