Pistlar

Næstum því álfasaga
Föstudagur 2. júní 2023 kl. 08:39

Næstum því álfasaga

Aðalatriði skipta máli, það lærði ég nýverið þegar ég var dunda mér við að gera snyrtilegt í kringum lítinn sumarbústað sem ég á fyrir austan fjall. Svona dund er algjört sælgæti fyrir sálarlífið, núvitund á hæsta stigi. Komst að því að ég þurfti á smá trjákurli að halda og ákvað að renna með kerruna til að ná í smávegis trjákurl. Hreppurinn hefur komið upp svona trjákurlsstað langt úti í móa, þar sem þeir geta sótt sér sem á þurfa að halda.

Nú er ég ekki maður sem trúi á álfa eða huldufólk öllu jafnu en þar sem ég er að byrja á að moka kurlinu á kerruna sprettur skyndilega lítill strákur upp úr móanum. Hann var klæddur í fallega íslenska lopapeysu, með húfu á hausnum. Sennilega hefur hann verið í kringum fimm, sex ára. Verð að viðurkenna að mér brá svolítið, hugsaði: „Geta þessa sögur um álfa huldufólk verið sannar?“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég hélt áfram að moka, reyndi að láta sem allt væri eins það ætti að vera. Álfurinn nálgast mig hratt og ég bý mig undir að nú fái ég í fyrsta sinn að upplifa eitthvað yfirnáttúrulegt. Hinn meinti álfur kemur alveg upp að mér, horfir á mig í smá stund og spyr svo: „Vantar þig hjálp?“

Ég velti því fyrir mér hvað hann eigi við. Ekki var hann það stór að hann gæti valdið skóflunni, ákvað að spjalla aðeins við hann og forvitnast. „Hvaðan kemur þú?“ spyr ég og fer að lítast í kringum mig og sé þá skurðgröfu nokkur hundruð metra í burtu. „Ég er að hjálpa afa,“ segir hann og bendir á gröfuna um leið og hann eyðileggur álfasöguna fyrir mér.

„Hvað heitir hann afi þinn?“ spyr ég um leið og ég sé að strákurinn hefur engan skilning á þessari spurningu minn og finnst ég bara vera að flækja málið. „Vantar þig hjálp?,“ spyr hann aftur og bætir við: „Hann heitir bara afi.“ Ég svara honum að hjálpin væri vel þegin og með það skýst hann út í móann í átt að gröfunni. Skömmu síðar kemur afinn, sem ég veit ekki enn hvað heitir, á gröfunni og mokar upp í kerruna hjá mér.

Af þessu lærði ég að það skiptir ekki máli hvað afar heita, þeir eru bara afar og engin ástæða til að flækja það neitt frekar, fremur en svo margt annað sem á vegi manns verður. Það eru aðalatriðin sem skipta máli.