Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Pistlar

Löng saga í útgerð og fiskvinnslu
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 13. október 2023 kl. 06:09

Löng saga í útgerð og fiskvinnslu

Margir af þessum pistlum mínum hafa verið skrifaðir víða um Ísland og sumir á stöðum þar sem ég er í Evrópu. Þessi pistill er einmitt skrifaður í Evrópu, nánar tiltekið í Mechelen sem er lítil borg um tuttugu kílómetra norðan við Brussel í Belgíu. Vanalega þegar ég er á hinum ýmsu stöðum reyni ég nú iðulega að tengja þann stað við Suðurnesin en við þennan stað sem ég er á núna er ekki hægt að tengja neitt við útgerð og sjósókn á Suðurnesjum. Svo þá er ekkert spáð meira í því.

Fyrir nokkrum pistlum síðan þá fór ég yfir hvað fyrirtækin á Suðurnesjunum fengu úthlutað í kvóta fiskveiðiárið 2023–2024 sem er núna komið í gang. Í þessari yfirferð minni þá steingleymdi ég einu fyrirtæki sem á sér nokkuð langa sögu í útgerð og fiskvinnslu. Þetta er fyrirtækið Saltver ehf. sem á og gerir út Erling KE og er með fiskvinnslu í Njarðvík.

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Fyrirtækið var stofnað árið 1977 þegar báturinn Örn RE var keyptur og fékk hann nafnið Örn KE. Sá bátur var gerður út að mestu til veiða á loðnu og síld alveg fram til ársins 2004.

Á þessum 27 árum sem að báturinn var gerður út tók hann miklum breytingum. Fyrst var hann óyfirbyggður og bar þá um 350 tonn af loðnu, síðan var byggt yfir hann og þá jókst burðargetan í tæp 650 tonn, síðan var hann lengdur og þá var burðargetan tæp 750 tonn. Síðan var hann lengdur, breikkaður og ný brú sett á bátinn, þá bar hann 1.100 tonn og algjörlega gjörbreyttur frá því sem báturinn upprunalega var.

Samhliða þessu gerði fyrirtækið út Erling KE á loðnu og 1995 var Höfrungur II GK frá Grindavík keyptur og fékk hann nafnið Erling KE. Hann var gerður út til 2005 þegar sá bátur var seldur og 233, Óli á Stað GK, var keyptur og fékk nafnið Erling KE.

Við vitum hvað gerðist fyrir þann bát, hann brann um áramótin 2021–2022 og þá var 1202, gamli Grundfirðingur SH, gerður út undir nafninu Erling KE. Síðan var nýjasti Erling KE keyptur sem er núna búinn að vera í slippnum í Njarðvík.

Reyndar áður en Höfrungur II GK var keyptur hafði annar bátur verið gerður út sem hét líka Erling KE og árið 2001 kom nýtt uppsjávarskip sem hét Guðrún Gísladóttir KE en sá bátur strandaði og sökk við Noreg í september 2002.

Núverandi Erling KE fékk úthlutað 1.523 tonna kvóta miðað við þorskígildi en það er kannski merkilegast við það að FISK á Sauðárkróki keypti kvóta af Saltveri og færði yfir á togarann Drangey SK frá Sauðárkróki. Þetta voru alls um 490 tonna kvóti og af því var 300 tonn af ufsa.

Auk þessa þá keypti Steinunn ehf. í Ólafsvík, sem FISK ehf. á hlut í, líka kvóta af Saltveri, eða samtals um 130 tonn og af því þá var ufsi um 72 tonn.

Þetta þýðir að þrátt fyrir að Erling KE hafi fengið 1.523 tonna kvóta úthlutað þá á báturinn einungis eftir 988 tonn óveidd.

Þessi viðskipti eru mjög stór og líklega er verðmæti kvótans sem fór norður og vestur í kringum 1,5 milljarður króna. Erling KE hefur ekki landað neinum fiski það sem af er þessu fiskveiðiári.